Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Aðgerðaráætlun

 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur, í samræmi við ákvæði efnalaga, gefið út aðgerðaáætlun um notkun varnarefna sem gildir til ársins 2031. Í áætluninni koma fram upplýsingar um notkun plöntuverndarvara hér á landi og sett eru fram mælanleg markmið og tímaáætlun um aðgerðir og stefnumörkun í því skyni að draga markvisst úr notkun þeirra til hagsbóta fyrir heilsu og umhverfið. Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna er gefin út til 15 ára og endurskoða skal hana á 5 ára fresti.

 Þetta er í fyrsta sinn sem aðgerðaáætlun um notkun varnarefna er útbúin hér á landi og í henni er tekið saman hversu mikið af plöntuverndarvörum er sett á markað, í hvaða ræktun þær eru notaðar og af hverjum, auk þess sem fram kemur samanburður við notkun á plöntuverndarvörum í öðrum löndum.

 Í áætluninni eru sett fram tímasett markmið sem miða að því að draga úr áhættu af völdum plöntuverndarvara gagnvart heilsu og umhverfi og má þar nefna að:

  • fyrir árslok 2017 skal uppfæra gögn um markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara hér á landi, sjá samantektarskýrslu efst á síðunni.
  • fyrir árslok 2019 skal útbúa áætlun sem miðar að því að dregið verði úr notkun plöntuverndarvara í þéttbýli, meðfram vegum og í öðru manngerðu umhverfi, sjá leiðbeiningar efst á síðunni.
  • eftir 31. desember 2021 skal allur búnaður til dreifingar á plöntuverndarvörum hafa verið skoðaður af Vinnueftirliti ríkisins
  • eftir 31. desember 2025 skulu allar plöntuverndarvörur sem leyfðar eru til almennrar notkunar hafa undirgengist viðeigandi áhættumat áður en þær fá að fara á markað.

Mikilvægur liður í því að draga úr notkun plöntuverndarvara gegn skaðvöldum í landbúnaði og garðyrkju er að styðjast við valkosti í plöntuvernd sem ekki byggjast á notkun efna. Sömuleiðis skipa samþættar varnir mikilvægt hlutverk í þessu tilliti, þar sem bæði er stuðst við aðgerðir sem byggja á notkun efna og aðferða sem gera það ekki. Umhverfisstofnun er falið að upplýsa almenning og atvinnulífið um hættu samfara notkun efna gegn skaðvöldum í landbúnaði og garðyrkju og jafnframt að benda á valkosti til að draga úr notkun þeirra.

 Í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 677/2021 um meðferð plöntuverndarvara og úrýmingarefna eru í áætluninni settir fram áhættuvísar varðandi markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara.  Áhættuvísarnir koma fram í töflunni hér að neðan og þeir gagnast til þess að meta hvort þróun í notkun plöntuverndarvara sé í samræmi við það markmið að draga úr notkun þeirra á tímabilinu sem aðgerðaáætlunin nær yfir.

Texta aðgerðaáætlunarinnar má nálgast hér