Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur nú gefið út nýtt starfsleyfi fyrir Orkugerðina ehf. Starfsleyfið gildir fyrir framleiðslu á próteinmjöli og fitu úr dýraleifum og er rekstraraðila heimilt að framleiða úr allt að 7.000 tonnum af hráefni á ári.
Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar á tímabilinu 2. október til 30. október 2019 og var gefinn kostur á skriflegum umsögnum á þeim tíma. Fjórar umsagnir bárust og komu þrjár þeirra frá nágrönnum verksmiðjunnar og ein frá rekstraraðila sjálfum. Að fengnum umsögnum var tekin ákvörðun um nokkrar breytingar frá auglýstri tillögu.

Ákveðið var að setja í starfsleyfið ákvæði um að girða skuli í kringum verksmiðjuna með girðingu sem hindri aðgang manna og skepna auk þess sem hlið skuli vera læst nema þegar starfsemi fari fram. Frestur er gefinn til að girða í kringum verksmiðjuna er til 1. september 2020.
Rekstraraðilar bentu á það í umsóknarferlinu að endurbætur á mengunarvörnum verksmiðjunnar stæðu yfir. Einnig kom fram í umsögnum að nauðsynlegt væri að gera úttekt á tækjabúnaði. Því var ákveðið að skylda rekstraraðila til þess að gera skýrslu um endurbætur á búnaði verksmiðjunnar á síðustu árum og getu hennar til að takmarka og/eða draga úr mengun. Skilafrestur skýrslunnar er til 1. maí 2021. Aðrar efnislegar breytingar voru ekki gerðar frá tillögunni til útgefins starfsleyfis.
Starfsleyfi þetta er veitt samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfsleyfið gildir til 13. desember 2035.

Auglýsing þessi er birt á fréttasvæði Umhverfisstofnunar en auk þess í sérstökum dálki fyrir opinberar birtingar á starfsleyfum sem Umhverfisstofnun gefur út.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 1.mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Starfsleyfi Orkugerðarinnar

Umsögn: Hlíðarbrún
Umsögn: Lambastaðir
Umsögn: Volatún