Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur heimilað gangsetningu ljósbogaofns Sameinaðs Sílikons að nýju.

Ákvörðunin hefur verið tilkynnt Sameinuðu Silíkoni með bréfi. Hún er tekin í kjölfar þess að Umhverfisstofnun samdi við norskt ráðgjafarfyrirtæki, Norconsult, um að gera sjálfstæða/óháða úttekt á verksmiðjunni og meta úrbótaáætlanir fyrirtækisins. Rekstraraðili hefur í samvinnu við ráðgjafarfyrirtækið Multiconsult unnið að úrbótum sem úttekaraðili og Umhverfisstofnun telja til þess fallnar að draga úr lyktaráhrifum. Niðurstaða rannsókna er að lyktarmengunin frá verksmiðjunni hafi tengst of lágu hitastigi á afgasi.

Multiconsult (ráðgjafi rekstraraðila) hefur fengið norsku rannsóknarstofnunina NILU (Norsk institutt for luftforskning) til að halda utan um mælingar og greiningu. Eftir að ofn verksmiðjunnar verður endurræstur gefst kostur á betri og ítarlegri mælingum á útblæstri og í andrúmslofti.

Þar sem ljósbogaofn verksmiðjunnar hefur ekki verið í gangi síðan í lok apríl telja rekstraraðili og ráðgjafar líklegt að óstöðugleiki verði í ofninum fyrst um sinn. Gangsetning mun fara fram með tilliti til vindátta yfir Reykjanesbæ. Veðurspá Veðurstofu Íslands gerir ráð fyrir suðaustlægum  áttum á fyrirhuguðum gangsetningardegi, sunnudeginum 21. maí um og eftir kl. 16:00. Útblástur frá verksmiðjunni ætti því ekki að berast yfir Reykjanesbæ í upphafi gangsetningar. Stöðvist ofninn á ný í meira en klukkustund er rekstraraðila skylt að tilkynna stofnuninni þar um.Umhverfisstofnun mun fylgjast vel með framgangi og aðhafast ef þarf með hagsmuni íbúa að leiðarljósi í samræmi við lög og skyldur um eftirlit með mengandi starfsemi. Haft var samráð við Sóttvarnalækni um ákvörðunina og verður áfram samstarf við embættið hvað varðar hugsanleg áhrif á heilsu íbúa.

Nánari upplýsingar gefur Sigrún Ágústsdóttir sviðstjóri, s: 8224001.