Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að nýju starfsleyfi fyrir Háafell ehf. til framleiðslu á allt að 800 tonna seiðaeldi laxa- og regnbogasilungs á ári við Ísafjarðardjúp að Nauteyri í Strandabyggð. Núverandi starfsleyfi er til framleiðslu á 200 tonnum af laxa- og regnbogasilungsseiðum. Tillagan ásamt umsókn rekstraraðila verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 15. nóvember til 14. desember 2018 (fjórar vikur).

Um er að ræða strandeldi seiða (seiðaeldisstöð) og telur Umhverfisstofnun að mengun verði aðallega í formi lífræns úrgangs (bæði í föstu og uppleystu formi) frá eldinu og muni berast í viðtakann sem er Ísafjarðardjúp neðan stórstraumsfjörumarka. Að mati stofnunarinnar eru áhrif mengunar minniháttar og afturkræf og munu því ekki hafa varanleg áhrif á umhverfið en jafnframt er hægt að grípa til aðgerða ef aðstæður breytast með ákvæmum í starfsleyfi.

Skipulagsstofnun ákvarðaði að starfsemin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum í ákvörðun sinni dags. 18. desember 2015.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 14. desember 2018.

Tengd skjöl:

Tillaga að starfsleyfi
Umsókn
Matsskylduákvörðun
Greinargerð matsskyldufyrirspurnar
Deiliskipulag - Greinargerð og umhverfisskýrsla Nauteyrar