Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Orkugerðina ehf.Fyrirtækið er staðsett í Heiðargerði 5 sem er í Flóahreppi skammt austan við Selfoss.
Tilgangur starfseminnar er að taka á móti framleiðsluleifum frá sláturhúsum og kjötvinnslum og framleiða próteinmjöl og fitu og pakka þeim í umbúðir. Í tillögunni er kemur fram að gefin verður heimild til að framleiða úr allt að 7.000 tonnum af hráefni á ári.

Breytingar hafa nýlega orðið á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem valda því að veiting starfsleyfis til Orkugerðarinnar ehf. og viðeigandi eftirlit er nú á hendi Umhverfisstofnunar en áður var Heilbrigðiseftirlit Suðurlands útgefandi starfsleyfis og sá jafnframt um mengunareftirlit. Fyrra starfsleyfi sem Orkugerðin ehf. starfaði eftir var því gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og gilti leyfið til 27. febrúar 2019.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti tímabundna undanþágu frá starfsleyfi fyrir starfsemina vegna þess að nýtt starfsleyfi myndi fyrirsjáanlega ekki verða gefið út fyrir þann tíma og gildir hún til 31. desember 2019 eða þar til nýtt starfsleyfi verður gefið út. Litið var til þess að sótt hafði verið um starfsleyfi og að umsóknin var í vinnslu hjá Umhverfisstofnun.

Tillaga að starfsleyfi ásamt umsókn rekstraraðila verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 2. október til og með 30. október 2019 og gefst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins verður tekin.
Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.
Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 30. október 2019.

Orkugerðin ehf, starfsleyfistillaga

Umsókn um starfsleyfi, Orkugerðin ehf