Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun tók þann 28. maí 2020 ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi fyrir Háafell ehf. fyrir sjókvíaeldi með hámarkslífmassa allt að 7.000 tonnum(6.800 tonn regnbogi og 200 tonn þorskur) í Ísafjarðardjúpi.

Unnið hefur verið með Matvælastofnun að samræmingu við leyfisútgáfu rekstrarleyfis, en leyfin eru afhent rekstraraðila samtímis skv. 3. mgr. 4. gr. b. laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

Umhverfisstofnun sendi inn athugasemdir á sínum tíma við frummatsskýrslu þar sem m.a var bent á að lífrænt álag á svæðum í Álftafirði og Seyðisfirði gæti orðið mikið og framleiðsla mætti ekki fara yfir svokallað LENKA mat fyrir eldissvæðin. Vöktunaráætlanir eru mikilvægar til að hægt sé að meta raunástand svæðanna með tilliti til lífræns álags. Burðarþol fyrir Ísafjarðardjúp hefur verið metið 30.000 tonn af Hafrannsóknastofnun þar sem lögð er áhersla á að eldi innan við Æðey verði ekki meira en áætlað er í þessu leyfi.

Umhverfisstofnun telur að þær kröfur og sú vöktun sem tilgreind er í starfsleyfi og vöktunaráætlun sé fullnægjandi til að draga úr neikvæðum áhrifum mengunar frá eldinu á annað lífríki fjarðarins. Áhrif eldisins verði helst á takmörkuðu svæði í og við botn næst svæðunum þar sem súrefnisinnihald getur minnkað meðfram því sem aukið magn uppleystra næringarefna frá eldinu berst í viðtakann. Áhrifin eru staðbundin og með hvíld svæða milli eldislota verði þau tímabundin og afturkræf. Að mati Umhverfisstofnunar verður vöktun því fullnægjandi og ef svæði sýna neikvæða þróun m.t.t. umhverfisþátta er hægt að takmarka og/eða draga úr notkun svæða í samráði við leyfishafa.

Umhverfisstofnun bárust athugasemdir frá fjórum aðilum á auglýsingatíma. Athugasemdir bárust frá Óttari Yngvasyni fyrir hönd nokkurra aðila, Landsambandi veiðifélaga, Veiðifélagi Langárdals- og Hvannárdalsdeildar og eigendum Arngerðareyrar og Laugabóls í Ísafirði. Greinargerð fylgir starfsleyfinu þar sem farið er yfir þá þætti er snúa að útgáfu, athugasemdum og umfjöllun um umhverfisþætti sem snúa að útgáfu starfsleyfis.

Umhverfisstofnun telur að umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi verið lýst með fullnægjandi hætti og sé lögmætur grundvöllur fyrir útgáfu leyfis.

Tengd skjöl:

Ákvörðun, starfsleyfi og greinargerð
Hér má finna auglýsingu vegna tillögu að starfsleyfi Háafells ásamt þeim gögnum sem lágu til grundvallar.
Athugasemdir Óttars Yngvasonar fh. nokkurra aðila
Athugasemdir Landsambands veiðifélaga
Athugasemdir Veiðifélags Langadals- og Hvannárdalsdeildar
Athugasemdir frá eigendum Arngerðareyrar og Laugabóls í Ísafjarðardjúpi