Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að breytingu á starfsleyfi Arctic Sea Farm hf. í Patreks- og Tálknafirði.

Rekstaraðili sótti um breytingu á starfsleyfi þann 5. maí 2020 sem fól í sér að fá heimild til notkunar á koparlituðum nótum í kvíar. Gildandi starfsleyfi gerir ekki ráð fyrir notkun á slíkum nótum og er því sótt um heimild til notkunar á þeim í eldinu. Umhverfisstofnun getur veitt slíka heimild í leyfi en þá er gerð krafa um að kopar sé vaktaður í umhverfinu. Að mati stofnunarinnar munu áhrif kopars ekki vera umtalsverð á notkunarsvæðinu þar sem nótapokarnir eru þvegnir í þvottastöð á landi þar sem gera má ráð fyrir að mest af koparnum falli til og tekið er á þar. Er það mat stofnunarinnar að sú vöktun og þær aðgerðir sem rekstraraðili muni fari í komi ekki til með að valda verulegum óafturkræfum umhverfisáhrifum. Upplýsingar um nótapoka sem rekstaraðili hyggst nota má finna hér að neðan.

Tillaga að breytingunni felur einnig í sér uppfærslu á tilvísunum í lög og reglugerðir ásamt lagfæringum til samræmis við nýrri starfsleyfi sem gefin eru út af Umhverfisstofnun. Breytingar aðrar en uppfærsla á tilvísunum í lög og reglugerðir frá gildandi starfsleyfi eru settar í hornklofa. Ekki er um að ræða breytingu á umfangi eldisins.

Umhverfisstofnun kallar eftir athugasemdum við breytingar og skulu þær vera skriflegar og sendar til Umhverfisstofnunar. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 24. júlí 2020. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Tengd skjöl:

Mynd: Arctic Sea Farm