Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt starfsleyfi fyrir Rio Tinto á Íslandi hf. Fyrirtækinu hefur m.a. verið gert skylt að starfrækja umhverfisstjórnunarkerfi, ákvæði um þynningarsvæði hafa verið felld út og heimildir til losunar hafa verið þrengdar. Hér er átt við losun efna sem ekki eru undir regluverki fyrir gróðurhúsalofttegundir.

Breytingar á starfsleyfinu
Starfsleyfið heimilar sama rekstur og fyrra starfsleyfi. Í því felst að framleiða allt að 460.000 tonn af áli í kerskálum álvers ISAL í Straumsvík, rekstur tilheyrandi málmsteypu, ker- og skautsmiðju og flæðigryfju fyrir kerbrot og tilgreindan eigin framleiðsluúrgang, auk þjónustu sem tengist framleiðsluferlum beint. 

Í nýja starfsleyfinu felast einnig umtalsverðar breytingar:

  • Skylda til að starfrækja umhverfisstjórnunarkerfi.
  • Engin ákvæði um þynningarsvæði.
  • Losunarmörkum fyrir ársmeðaltal heildarlosunar flúoríðs, brennisteins og ryks frá kerskálum breytt í samræmi við niðurstöður Evrópusambandsins um bestu aðgengilega tækni (BAT-niðurstöður). Önnur losunarmörk einnig aðlöguð að BAT-niðurstöðum.
  • Val á tæknilausnum til að draga úr losun og minnka önnur umhverfisáhrif er sett fram í takt við BAT-niðurstöður.
  • Mælikröfur á losun álversins auknar.

Í starfsleyfinu eru einnig ákvæði (losunarmörk) sem virkjast ef um aukna framleiðslu verður að ræða í álverinu á starfsleyfistíma. Ef ársframleiðslan fer yfir 330.000 tonn taka hert ákvæði gildi. 

Breytingarnar á starfsleyfinu koma til af ýmsum ástæðum, til að mynda vegna breytinga á lögum og reglum á þessu sviði. 

Gildístími
Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 28. október 2037. 
Með gildistöku þess fellur úr gildi starfsleyfi álversins sem gefið var út 7. nóvember 2005, og upphaflega var gefið út til handa Alcan á Íslandi. 

Umsagnir og athugasemdir
Tillaga að starfsleyfi ásamt umsóknargögnum frá rekstraraðila var aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 24. ágúst til og með 21. september 2021 og gafst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins yrði tekin.

Rafrænn kynningarfundur um starfsleyfistillöguna var haldinn kl. 12:00 þriðjudaginn 14. september 2021.

Átta aðilar sendu inn umsagnir um starfsleyfistillöguna og vöktunaráætlunina sem einnig mátti gera athugasemdir við. Greinargerð fylgir starfsleyfinu þar sem farið er yfir þá þætti er snúa að útgáfu, athugasemdum og umfjöllun um umhverfisþætti er varða útgáfu starfsleyfisins en auk þess er fjallað um umsagnir sem snertu vöktunaráætlunina og viðbrögð Umhverfisstofnunar við umsögnunum. 

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Tengd skjöl: