Upplýsingar um útgáfu BAT-niðurstaðna

Í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, segir að BAT-niðurstöður (þ.e. niðurstöður um bestu aðgengilega tækni) séu „tilvísun til reglugerðar sem ráðherra setur, sbr. 5. gr., þar sem settar eru fram niðurstöður um bestu aðgengilegu tækni, lýsing á henni, upplýsingar til að meta notkunarsvið hennar, losunargildin sem tengjast þessari bestu aðgengilegu tækni, tengd vöktun, tengd notkunargildi og, eftir því sem við á, viðeigandi ráðstafanir til úrbóta á staðnum.“

BAT niðurstöður (e. BAT Conclusions; BATC) eru gefnar út af Evrópusambandinu og ráðinu og eru mikilvægur liður í verklagi sem tilskipun 2010/75/EB um losun í iðnaði kveður á um. Gefnar eru út nýjar BAT niðurstöður með reglubundnum hætti og þær birtar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Í ferlinu sem ákvarðar BAT niðurstöður er jafnhliða gert ítarlegt BAT-tilvísunarskjal (e. BAT reference document; BREF) þar sem mengun frá umræddri starfsemi er greind og niðurstöðum þessara greininga er ætlað að stuðla að gagnsæi og fyrirsjáanleika um með hvaða hætti BAT-niðurstöður eru ákvarðaðar.

Einfalt er að finna þær BATC gerðir og BREF skýrslur sem gerðar hafa verið og eru í vinnslu á hverjum tíma á upplýsingasíðu Evrópuskrifstofunnar um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun. Innleiðing á evrópskum BAT-niðurstöðum á Íslandi er með reglugerð nr. 935/2018.

Umhverfisstofnun vísar í BAT-niðurstöður við útgáfu starfsleyfa þar sem um er að ræða nýja starfsemi og þar sem BAT-niðurstöður hafa verið birtar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Umhverfisstofnun tekur einnig gildar þær aðferðir mengunarvarna og vöktunar sem samrýmast BAT-niðurstöðum. Sem dæmi má nefna útgáfu starfsleyfis fyrir þauleldi þar sem upplýsingar um BAT-niðurstöður og BREF skýrslur eru birtar á vefsvæði Umhverfisstofnunar með tilkynningu um útgáfu starfsleyfis.

Umhverfisstofnun bendir einnig á og hefur nýtt sér vinnu hins svokallaða norræna BAT – hóps sem hefur verið starfandi faghópur á vegum Norræna ráðherraráðsins undir vinnuhópi um hringrásarhagkerfi (NCE). Þessi hópur hefur gefið út skýrslur sem fjalla um BAT og eru þær ýmist framlag til Evrópsku vinnunnar og gerð BREF skýrslna á vettvangi Evrópuskrifstofunnar eða sjálfstæðar BAT skýrslur.

Loks er rétt að geta þess að Umhverfisstofnun hefur notað skjal um bestu aðgengilega tækni fyrir malbiksframleiðslu sem gefið er út af Evrópskum samtökum malbiksframleiðenda (EAPA) þegar um er að ræða starfsleyfi fyrir framleiðslu á malbiki.