Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Úrgangur verður að vöru - Ráðgefandi álit

Úrgangur sem fer í gegnum einhverja tegund endurnýtingar getur hætt að vera úrgangur og orðið aftur að efni eða hlut, sbr. reglugerð um lok úrgangsfasa og reglugerð um endurnýtingu úrgangs. Til að þetta gerist þarf úrgangurinn að fara í gegnum endurnýtingaraðgerð og uppfylla viðmið sem koma fram í viðeigandi reglugerð. Ekki er nóg að uppfylla skilyrðin sem koma fram í lögum um meðhöndlun úrgangs (21. gr.) Í reglugerð um lok úrgangsfasa koma fram sérstök viðmið um lok úrgangsfasa fyrir tilteknar gerðir brotajárns, glerbrot og koparrusl. Reglugerð um endurnýtingu úrgangs gildir um endurnýtingu úrgangs sem ekki eru til viðmið um lok úrgangsfasa fyrir.

Ráðgefandi álit Umhverfisstofnunar felur í sér mat stofnunarinnar á því hvort úrgangurinn hætti að vera úrgangur þegar hann hefur farið í gegnum endurnýtingaraðgerðina, sbr. reglugerð um endurnýtingu úrgangs. Þar með gefst aðilum, sem framleiða afurðir með því að endurnýta úrgang, tækifæri til þess að markaðssetja sína afurð sem vöru. Með þessu opnast því leið til að breyta úrgangi aftur í vöru, með endurnýtingaraðgerð, jafnvel þótt ekki liggi fyrir sérstök viðmið um lok úrgangsfasa.

Þeir aðilar sem hyggjast markaðssetja endurnýttan úrgang sem vöru ber að sækja um ráðgefandi álit Umhverfisstofnunar á því hvort úrgangurinn hætti að vera úrgangur þegar hann hefur farið í gegnum viðkomandi endurnýtingaraðgerð. Umsóknir skulu berast í gegnum Þjónustugátt Umhverfisstofnunar.

Hér eru birt þau ráðgefandi álit Umhverfisstofnunar um lok úrgangsfasa til aðila er endurnýta úrgang, að gefnu leyfi umsækjanda.