Flug

Flug hefur verið hluti af viðskiptakerfinu frá árinu 2012. Að jafnaði ætti allt flug til og frá aðildarríkum ESB auk Íslands, Noregs og Liechtenstein að vera innan kerfisins, en í raun tekur það einungis á flugi innan EES svæðisins í dag. Ástæðan er reglugerð sem sett var á árið 2013 og síðan framlengd til ársins 2023 til þess að auðvelda fyrir samningaviðræðum um markaðstengt fyrirkomulag á alþjóðavettvangi, CORSIA. Kerfið nær einungis til flugrekenda í atvinnurekstri sem losa yfir 10.000 tonn af CO2 á ári og flugrekenda sem að eru ekki í atvinnurekstri og yfir 1.000 tonn af COá ári.

Virkir flugrekendur innan ETS árið 2015 voru 776 og þar af 4 í umsjá Íslands.

Vöktun, skýrslugjöf og uppgjör

Fyrirtæki sem falla undir viðskiptakerfið krafin um að hafa eftirlit með og skrá árlega losun sína á gróðurhúsalofttegundum. Þeir vakta losunina samkvæmt vöktunaráætlun sem samþykkt er af Umhverfisstofnun. Raunlosun er síðan vottuð af óháðum aðilum og losunarskýrsla send árlega til Umhverfisstofnunar. Síðan þurfa fyrirtækin að gera upp losunina í formi losunarheimilda sem samsvara  heildarmagni raunlosunar. Ef fyrirtæki afhendir ekki tilskilinn fjölda losunarheimilda ber viðkomandi ríki að knýja fram efndir með viðurlagaákvæðum, m.a. með álagningu sekta.

 

Tímabil kerfisins

Viðskiptakerfið hefur verið starfrækt frá ársbyrjun 2005 en því hefur verið skipt upp í mismunandi tímabil. Fyrsta tímabilið var frá 2005 til loka árs 2007. Annað tímabil samsvarar skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar, 2008-2012, en fjöldi heimilda innan viðskiptakerfisins á öðru tímabili tekur mið af fjölda heimilda sem gefnar voru út í samræmi við bókunina. Þriðja tímabilið hófst svo í ársbyrjun 2013 og stendur fram til ársins 2020. Fjórða tímabilið mun svo hefjast árið 2021 og standa til ársins 2030.