Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Borgarvogur í Borgarbyggð

 


Mynd: Þorleifur Geirsson

Mynd: Þorleifur Geirsson


Í október 2020 lagði sveitarfélagið Borgarbyggð það til við Umhverfisstofnun að Borgarvogur yrði friðlýstur. Í kjölfarið óskaði Umhverfisstofnun eftir mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á verndargildi svæðisins, sem veitt var hinn 9. október 2020. Undirbúningur hófst í kjölfarið og var skipaður samstarfshópur sem hefur það hlutverk að vinna að undirbúningi friðlýsingarinnar í samræmi við málsmeðferðarreglur laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Samstarfshópurinn er skipaður fulltrúum sveitarfélagsins Borgarbyggðar sem einnig er landeigandi, fulltrúa Kirkjuráðs sem er landeigandi, fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og fulltrúum Umhverfisstofnunar.

Verndargildi Borgarvogs
Borgarvogur er eitt af mikilvægari fuglasvæðum Vesturland og er á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði, auk þess að vera svæði nr. 239. á núverandi náttúruminjaskrá, þ.e. vogurinn allur ásamt fjörum, leirum og fitjum. Vogurinn er bæði mikilvægur fyrir fuglalíf á svæðinu sem er ríkt allt árið og vegna lífríkis í voginum sjálfum. Borgarvogur hefur því bæði mikið staðbundið verndargildi og mikið verndargildi sem hluti af stærra svæði, þ.e. mikilvægu fuglasvæði. Vogurinn geymir víðáttumikla gulþörungaleiru sem er afar fágæt vistgerð á landsvísu en sú í Borgarvogi er sú stærsta þekkta á landinu og er mikilvægt búsvæði fyrir vaðfugla en leiran gegnir auk þess mikilvægu hlutverki við að takmarka neikvæð áhrif loftslagsbreytinga. Votlendi, leirur og fitjar njóta einnig sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Svæðið er 2,6 km2 að stærð.

Markmið friðlýsingarinnar
Friðlýsing svæðisins miðar að því að viðhalda og vernda til framtíðar náttúrulegt ástand Borgarvogs og líffræðilega fjölbreytni svæðisins þannig að fái þróast samkvæmt náttúrulegum lögmálum sínum og á eigin forsendum. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins og að almenningur fái notið svæðisins til náttúruskoðunar og fræðslu.

Mynd: Eva Sólan
Mynd: Eva Sólan

Áform um friðlýsingu auglýst 2020
Áform um friðlýsingu Borgarvogs voru auglýst þann 22. desember 2020. Frestur til að skila inn athugasemdum var til 21. febrúar 2021. Auglýsing um áformin var birt í Lögbirtingarblaðinu, í Fréttablaðinu, í Skessuhorni og á heimasíðum Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem og á facebooksíðu Umhverfisstofnunar. Einnig var vakin athygli á áformunum á facebook síðu Borgarness og á heimasíðu Borgarbyggðar.  Alls bárust athugasemdir frá 14 aðilum á kynningartíma áforma. Gerð er grein fyrir athugasemdunum ásamt svörum samstarfshópsins við þeim í Umsögn um athugasemdir sem bárust á kynningartíma áforma um friðlýsingu Borgarvogs í Borgarbyggð.

Tillaga að friðlýsingu auglýst 2021
Tillaga að friðlýsingu Borgarvogs sem unnin var af samstarfshópnum var lögð fram til kynningar, ásamt korti, þann 13. apríl 2021. Frestur til að senda inn athugasemdir og ábendingar var til og með 14. júlí 2021. Tillagan var send sveitarfélaginu Borgarbyggð og öllum samráðs- og hagsmunaaðilum sem málið gæti varðað auk landeigendum/rétthöfum sem jafnframt var kynntur réttur til bóta. Sérstaklega var óskað eftir umsögnum fagstofnana sem ekki áttu sæti í samstarfshópnum. Auk þess var tillagan auglýst á vef Umhverfisstofnunar og Facebook síðu Umhverfisstofnunar. Þá var einnig haldinn opinn kynningarfundur um tillöguna í Borgarnesi þann 24. júní 2021 og var fólk hvatt til að senda athugasemdir sínar og ábendingar. Alls bárust athugasemdir frá sjö aðilum á kynningartíma tillögunnar. Gerð er grein fyrir þeim athugasemdum sem bárust og viðbrögðum við þeim í Greinargerð um framkomnar athugasemdir á kynningartíma tillögu að friðlýsingu Borgarvogs í Borgarbyggð.

Að loknu kynningarferli tillögu ber Umhverfisstofnun að vísa málinu til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir hvort náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. 

Mynd: Þórhildur Kristinsdóttir

Mynd: Þórhildur Kristinsdóttir

Næstu skref:
Sveitarfélagið Borgarbyggð óskaði eftir því að taka tillöguna fyrir á fundi sveitarstjórnar þann 12. ágúst 2021. Í febrúar 2022 upplýsti byggðaráð Borgarbyggðar Umhverfisstofnun um að friðlýsing Borgarvogs hafi verið tekin fyrir á fundi byggðaráðs hinn 17. febrúar 2022, þar sem eftirfarandi afgreiðsla málsins, nr. 2009086, var samþykkt:
„Ákveðið hefur verið að hefja þurfi skipulagvinnu við fyrirhugaða íbúabyggð norðan Borgarvogs. Fulltrúum byggðarráðs Borgarbyggðar finnst mikilvægt að tekið sé tillit til þeirra breytinga og óska eftir því að fá tíma til að ljúka þeirri vinnu áður en að lengra er haldið með tillögu friðlýsingar Borgarvogsins“.

Tengd skjöl: