Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Álfaborg

Álfaborg

Álfaborg er hamraborg fram við sjó við miðjan Borgarfjörð eystri. Talið er að fjörðurinn dragi nafn sitt af borginni. Álfaborg var friðlýst sem fólkvangur árið 1976, en fólkvangar eru svæði sem friðlýst hafa verið til útivistar og almenningsnota.  

Þjóðsögur greina frá því að mikil álfabyggð sé í Álfaborg og að þar sé höfuðból æðstu álfa og höfðingja huldufólks á Austurlandi. Sagt er að álfadrottning Íslands búi í Álfaborg. Til eru margar þjóðsögur sem tengjast álfabyggð í Álfaborg, meðal annars um stúlkur sem giftust íbúum Álfaborgar og um konur sem þar bjuggu og höfðu samskipti við fólk í byggðarlaginu. Ein þeirra átti meðal annars að hafa haft áhrif á það hvar kirkjan var staðsett þegar hún var flutt frá Desjarmýri út í þorpið Bakkagerði í byrjun 20. aldar.  

Fólkvangurinn er 0,9 km2 að stærð. 

Fyrir gestinn – Ferðast um svæðið – Gagnlegar upplýsingar – Hvað er áhugavert? 

Til að komast að Álfaborg er keyrt eftir Borgarfjarðarvegi nr. 94. Auðveld gönguleið upp á Álfaborg hefst í nágrenni við tjaldsvæði í Bakkagerði. Uppi á Álfaborg er hringsjá sem sýnir fjallahringinn umhverfis Borgarfjörð eystri.  

Tjaldsvæðið í Bakkagerði er staðsett rétt við Álfaborg þar sem einnig er salernisaðstaða fyrir ferðamenn á tímabilinu 15. maí til 15. október. Ekki er gert ráð fyrir að tjaldað sé innan friðlýsta svæðisins.  

 

Umgengnisreglur 

  • Gangandi fólki er heimil för um svæðið enda sé gengið snyrtilega um og varast að skerða gróður og raska jarðmyndunum.  
  • Beit er óheimil innan fólkvangsins.  
  • Umferð hverskonar ökutækja um fólkvanginn er óheimil. 
  • Breytingar á landi, mannvirkjagerð og jarðrask er bannað nema í samræmi við skipulag sem samþykkt er af Umhverfisstofnun.  
  • Heimilt er að planta trjágróðri á svæðinu að ráði kunnáttumanna, en þó ekki í sjálfa Álfaborgina þar sem haldið skal náttúrulegum gróðri.   

Stjórnsýsla – rekstur/stjórnun 

Eftirlit með fólkvanginum er í höndum Borgarfjarðarhrepps. 

Tenglar: