Friðlýsing

Fljótlega eftir að Surtsey myndaðist sáu vísindamenn tækifæri til að fylgjast með þróun eyjarinnar og landnámi lífvera. Surtsey var friðuð árið 1965 meðan gosvirkni var enn í gangi og var friðunin bundin við eldfjallið ofansjávar. Friðlýsingin var endurnýjuð árið 1974 með skírskotun til nýrra náttúruverndalaga. Í tengslum við tilnefningu Surtseyjar á heimsminjaskrána, árið 2006, var friðlandið stækkað verulega og nær í dag yfir alla eldstöðina Surtsey, ásamt hafsvæðið umhverfis, samtals 65 ferkílómetra.

Með friðlýsingunni 1965 var tekið fyrir umferð ferðamanna út í eyna og gildir það enn þann dag í dag, nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Var þetta gert fyrst og fremst til að forðast aðflutning lífvera af mannavöldum, til að vernda viðkvæma náttúru og stuðla að því að eyjan fengi að þróast eftir lögmálum náttúrunnar án áhrifa eða afskipta mannsins.

Heimsminjaskrá

Heimsminjasamningur UNESCO frá árinu 1972 fjallar um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins og undirrituðu íslensk stjórnvöld samninginn árið 1995. Með samningnum viðurkenna ríki nauðsyn verndunar og skuldbinda sig að tryggja varðveislu þeirra, þar sem það er talið skaða arfleifð allra þjóða heims ef einhver hluti hinnar menningarlegu eða náttúrulegu arfleifðar spillist eða hverfur. Menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd samningsins fyrir Íslands hönd.

Haustið 2005 ákváðu íslensk stjórnvöld að tilnefna Surtsey á heimsminjaskrá UNESCO og sá Náttúrufræðistofnun Íslands um tilnefninguna hennar.

Tilnefningaskýrsla Surtseyjar á heimsminjaskrá 2007

Á fundi heimsminjanefndar UNESCO í Québec í Kanada, 7. júlí 2008, var samþykkt að setja Surtsey á heimsminjalistann sem einstakan stað náttúruminja á grundvelli mikilvægi rannsókna og vöktunar á landnámi dýra og plantna ásamt þróun eyjunnar og framvindu lífríkis Surtseyjar.

Surtsey er annað svæðið á Íslandi sem er samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO en árið 2004 voru Þingvellir samþykktir á skrána sem einstakur staður menningarminja.

Sú framsýni að friða Surtsey árið 1965, ásamt vöktun og rannsóknum vísindamanna á lífríki og jarðfræði eyjarinnar, á stóran þátt í því að Surtsey er á heimsminjaskrá UNESCO.

Friðlandið Surtsey á heimasíðu UNESCO