Varmárósar, Mosfellsbæ

 

Varmárósar voru fyrst friðlýstir árið 1980 en friðlýsingin var endurskoðuð árið 2012 og 2021. Svæðið hefur verið skráð á náttúruminjaskrá frá árin 1978. 

Verndargildi Varmárósa felst fyrst og fremst í því að það er mikilvægt fyrir vernd fágætrar tegundar auk þess sem fitjarnar eru sérstæðar að gróðurfari og mikilvæg vistkerfi fyrir fugla. Varmárósar eru annar tveggja fundarstaða fitjasefs á Íslandi, en fitjasef er flokkað sem tegund í nokkurri hættu á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands (2018) og er einnig friðlýst. Innan friðlandsins er einnig að finna vistgerðir sem hafa hátt verndargildi, t.a.m. sjávarfitjungsvist sem er mikilvæg fyrir bæði fuglategundir og sjaldgæfar plöntutegundir. Þá er friðlandið einnig hluti af stærra svæði í Leiruvogi sem er alþjóðlega mikilvægt fyrir fuglategundirnar margæs og sendling.  

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og viðhalda fitjasefi og búsvæði þess sem og náttúrulegu ástandi votlendis svæðisins ásamt sérstöku gróðurfari sem þar er og búsvæði fyrir fugla. Einnig er markmið með friðlýsingunni að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins með áherslu á plöntuna fitjasef, búsvæði hennar og þær vistgerðir votlendis, strandlendis og fjöruvistgerða sem er að finna á svæðinu. Ennfremur er það markmið friðlýsingarinnar að treysta útivistar-, rannsókna- og fræðslugildi svæðisins.  

Hvar eru Varmárósar

Varmárósar eru í sveitarfélaginu Mosfellsbæ í Kjós. Stærð friðlandsins er 29 hektarar og liggja mörk þess frá hesthúsahverfinu við Varmárbakka og frá göngustíg við reiðhringi út í Varmá og norður fyrir Hestþinghól út í ósinn.

Hvað er áhugavert?

Við Varmárósa koma saman land, haf og vatn, við það skapast aðstæður fyrir náttúrulegan fjölbreytileika, búsvæði fjölmargra villtra plantna og dýra. Með verndun svæðisins er verið að tryggja stöðu svæðisins og þann fjölbreytileika sem það býr yfir, viðhalda náttúrlegu svæði í jaðri þéttbýlisins og stuðla með því að tengslum manns og náttúru.

Gróður

Friðlandið við Varmárósa hefur að geyma mjög frjósaman jarðveg vegna árframburðar og hinna sérstöku skilyrða vegna sjávarfalla. Svæðið er að mestu votlendi og eru ríkjandi tegundir grös, starir og sef. Innan friðlandsins vex fitjasef (Juncus ferardii), þar sem sjávarfalla gætir, alfriðuð og mjög sjaldgæf planta sem einungis hefur fundist á tveimur stöðum á Íslandi, við Varmárósa árið 1976 og við Knarrarnes á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð árið 2002. Fitjasefið er skylt stinnasefi (Juncus squarrosus), er þó hávaxnara og með fleiri og fíngerðari blómhnoðu. Fitjasefið vex í þéttum breiðum og hefur skriðula jarðstöngla. Vegna þess hve útbreiðsla hennar er takmörkuð hafa komið upp tilgátur um að hún hafi borist hingað til lands með skipum fyrr á öldum.

Fuglar

Leirvogur er á náttúruminjaskrá vegna fjölskrúðugs fuglalífs, fjölbreytilegs strandgróðurs og lífríkrar fjöru. Í Leirvog rennur meðal annarra Varmá sem einnig er á náttúruminjaskrá og er ein af fáum varmám á landinu. Vogurinn er hvíldar- og setstaður farfugla á vorin og haustin, er svonefnt flóðsetur, staður þar sem fuglar safnast á, á flóði til þess að hvíla sig, áður en farið er í ætisleit þegar fjarar aftur. Algengustu farfuglarnir eru margæsir, rauðbrystingar og lóuþrælar, en tegundafjölbreytni er mikil og hafa margar sjaldgæfar tegundir sést hér við Varmárósa eins og gargönd, grafönd, gulönd, rauðhöfðaönd, urtönd, fálki, jaðrakan og haförn.

Aðgengi

Varmárósar eru í Mosfellsbæ og er aðgengilegt allan ársins hring. Bílastæði er við hesthúsin og göngustígur frá því að Hestaþinghóli. Varlega þarf að fara innan friðlandsins því fitjasefið þolir illa traðk og taka þarf tillit til fugla á varptíma.