Guðlaugstungur

Guðlaugstungur voru samþykktar sem Ramsarsvæði 2013 sem alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði.

Guðlaugstungur, Svörtutungur og Álfgeirstungur voru friðlýstar árið 2005. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda víðfeðmt og gróskumikið votlendi og stórt, fjölbreytt og mikilvægt rústasvæði. Guðlaugstungur eru á hálendinu norðvestan við Hofsjökul og er friðlýsta svæðið rúmlega 401 km2. Friðlýsta svæðið í heild sinni hefur verið tilnefnt á skrá Ramsar samningsins, en svæðið markast af tveimur jökulám sem renna úr Hofsjökli og sameinast svo í Blöndulóni.

Guðlaugstungur eru eitt af umfangsmestu votlendissvæðum hálendis Íslands. Votlendið skapar fjölbreytt búsvæði fyrir plöntur og dýr, sérstaklega fugla. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að votlendið í Guðlaugstungum er eitt stærsta varpsvæði heiðagæsar á Íslandi og hefur verið áætlað að þar verpi um 13.600 pör, eða um 25% af öllum heiðagæsastofninum á Íslandi og um 18-21% af heimsstofninum. Svæðið er einnig mikilvægt fyrir aðra fugla en þar eiga búsvæði m.a. heiðlóa, lóuþræll, þúfutittlingur og snjótittlingur.

Helstu ástæður þess að svæðið er talið eiga heima á lista Ramsar samningsins eru rústamýrarnar sem þar er að finna, en slík gerð votlendis er mjög sjaldgæf hér á landi. Þá er svæðið mikilvægt varpsvæði fyrir heiðagæsir og aðra fugla.