Mývatn og Laxá

Mývatn og Laxá voru vernduð með sérlögum árið 1974 og samþykkt sem Ramsarsvæði þremur árum seinna, árið 1977. Í heildina er svæðið um 200 km2.

Mývatn varð til fyrir um 3800 árum þegar hraun rann frá Ketildyngju og stíflaði upp „fyrsta“ Mývatn sem var svipað að stærð og núverandi vatn. Eldsumbrot á svæðinu urðu síðan til þess að vatnið mótaðist í þá mynd sem það er í dag.

Aðeins ein á rennur í Mývatn, Grænilækur, sem kemur úr Grænavatni sem er stutt sunnan við Mývatn. Annað aðrennsli kemur um lindir meðfram austurströnd vatnsins en talið er að vatnasviðið nái frá Dyngjufjöllum í suðri og hálfa leið austur að Jökulsá á Fjöllum. Lindavatnið er ýmist kalt eða volgt jarðhitavatn. Vatnsrennsli af yfirborði er mjög lítið og rennslið í vatnið því mjög jafnt.

Laxá fellur úr Mývatni í þremur farvegum, Ystukvísl, Miðkvísl og Syðstukvísl. Áin rennur í smáfossum með lygnum pollum inn á milli, innan um fallega gróna hólma með blágresi, hvönn, sóleyjum og víði.

Mývatn sjálft, ásamt Laxá sem fellur úr því, er eitt frjósamasta ferskvatn hér á landi. Vatnið er fjórða stærsta stöðuvatn landsins, um 37 km2 að stærð. Mývatns- og Laxársvæðið samanstendur af frekar grunnu vatni með mörgum eyjum og hólmum, vatns- og árbökkum, mýrum og flæðiengjum. Meðaldýpi vatnsins er aðeins um 2,5 m en mesta dýpi um 4 m. Lífríki svæðisins  er einstætt og sérstaklega fjölbreytt. Það byggir að miklu leyti á næringarríku jarðvatni, mikilli sólargeislun og hagstæðu vatnsdýpi fyrir botngróður og varpfugla. Fuglalíf svæðisins er mjög fjölbreytt, einkum vatna- og votlendisfuglar og silungsveiði er góð. Mývatnssveit er einnig þekkt fyrir einstakar jarðfræðiminjar.

Undirstaða hins fjölbreytta lífríkis er mikill vöxtur þörunga í vatninu en á þeim lifa mýlirfur og krabbadýr sem eru mikilvæg áta fyrir fugla og fiska. Botngróður er mikill og skilyrði fyrir vatnafugla góð vegna þess hve vatnið er hæfilega grunnt. Þar er urmull af mýflugulirfum af mörgum tegundum en þær púpa sig og taka á sig mýflugumynd á vissum tímum sumars, einkum í byrjun júní og ágúst. Laxá er einnig talin frjósamasta straumvatn á Íslandi. Fuglalíf svæðisins er mjög fjölskrúðugt. Þar eru endur mest áberandi en á Mývatns- og Laxársvæðinu verpa allar íslenskar andategundir að brandönd undanskilinni, þar á meðal tegundir sem eiga allt sitt undir þeim sérstæðu lífsskilyrðum sem þar ríkja. Til dæmis byggir húsandastofninn tilvist sína á vatnakerfi Mývatns og Laxár og heldur til þar allt árið. Stærsta flórgoðabyggð landsins er í Mývatnssveit og verpa þar yfir 200 pör að jafnaði. Auk flórgoða og húsandar eru tvær tegundir sem finnast óvíða annarsstaðar hér á landi, hrafnsönd og gargönd. Þá hafa einnig sést aðrar tegundir á svæðinu sem flokkast ekki sem íslenskar, t.d. hringönd, hrókönd og hvítönd. Flestar andategundirnar yfirgefa svæðið á haustin en þó eru nokkrar tegundir sem hafa vetursetu í Mývatnssveit.