Stök frétt

Mynd: Aneta Voborilova

Mikil umræða hefur skapast undanfarið um transfitusýrur í matvælum í nágrannalöndunum. Má til dæmis nefna að Danir vöktu athygli fyrir það að gefa út bækling um þennan málaflokk árið 1994 og hafa þeir fylgst sérstaklega vel með þróun mála og gefið út tvo bæklinga til viðbótar um transfitusýrur. Þá er hægt að finna á heimasíðu www.ernaeringsraadet.dk.

Transfitusýrur koma fyrir með tvennum hætti í matvælum. Annars vegar eru það transfitusýrur sem myndast þegar fljótandi olía er hert og hins vegar myndast transfitusýrur í vömb jórturdýra fyrir tilstilli baktería, sem finnast þar.

Sætmeti og kex

Transfitusýrur finnast í ýmsum matvælum og má þar nefna kex, kökur, vínarbrauð, skyndibitafæði og borðsmjörlíki. Ástæðan er annars vegar sú að bökunarsmjörlíki sem er notað við framleiðslu þessara vara inniheldur oft talsvert mikið af transfitusýrum og hins vegar að djúpsteikingarfeiti er einnig há af áðurnefndum fitusýrum.

Þær transfitusýrur sem koma náttúrulega fyrir finnast t.d. í lamba- og nautakjöti sem og í mjólkurfitu. Það er þó talsverður magnmunur þar á því iðnarmeðhöndluð fita getur innihaldið allt að 60% af transfitusýrum á meðan transfitusýrur í kjöti og mjólkurvörum eru um 2-5% af heildarfitumagni.

Rannsóknir sýna að inntaka á transfitusýrum auki líkur á hjarta- og æðasjúkdómum mun meira en inntaka á mettaðri fitu, sem þó er vel þekktur áhættuvaldur fyrir áðurnefnda sjúkdóma. Eins er talið að inntaka á transfitusýrum auki líkur á myndun sykursýki, týpu 2 eða sem oft er kallað “fullorðinssykursýki” en það á varla við lengur þar sem fólk er alltaf að verða yngra og yngra þegar það fær þennan sjúkdóm.

Barnshafandi konur og konur með börn á brjósti ættu að varast neyslu á transfitusýrum þar sem rannsóknir sýna möguleg neikvæð áhrif fyrir þetta lífsskeið þó svo að ekki sé komin nein afdráttarlaus niðurstaða hvað það varðar.

Ísland var eitt þátttökulanda í evrópsku rannsóknarverkefni ásamt 13 öðrum löndum árið 1995. Verkefnið hét: Neysla trans fitusýra og áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma í Evrópu, skammstafað TRANSFAIR (Trans Fatty Acid Intake and Cardiovascular Disease in Europe). Manneldisráð Íslands og Rannsóknastofnun Landbúnaðarins stóðu að íslenska hlutanum. Þessi rannsókn leiddi í ljós að meðaltalsneysla Íslendinga á transfitusýrum var hæst allra þáttökulandanna eða 5,4g á dag. Tekið var mið af landskönnun frá 1990 þegar þessi tala var fengin.

Manneldisráð Ísland framkvæmdi nýja landskönnun fyrir ári síðan og þá var meðalneysla á transfitusýrum komin niður í 3,5g á dag. Þessi lækkum er líklega tilkomin vegna þess að í dag er minna af transfitusýrum í borðsmjörlíki og bökunarsmjörlíki en var árið 1995. Eins hefur heildarfituneysla landsmanna minnkað frá árinu 1990.

Hins vegar er ljóst að neysla á transfitusýrum er enn of há á Íslandi. Þegar meðaltal er tekið er ljóst að stór hópur fólks fær minna en 3,5g á dag og stór hópur fólks fær meira en 3,5 g á dag, sem að sjálfsögðu er mikið áhyggjuefni. Þeir sem eru að fá mun meira en 3,5g á dag borða mikið af snakki, frönskum kartöflum, kexi, kleinuhringjum, vínarbrauði, örbylgjupoppi og þess háttar matvörum. Tekið skal fram að transfitusýrur er ekki það eina sem er óhollt við áðurnefnd matvæli eins og flestir vita.

En hvernig geta neytendur áttað sig á því hvort þeir séu að fá of mikið af transfitusýrum með fæðunni?

Samkvæmt reglugerð 586/1993, þá er ekki skylt að hafa næringargildismerkingu á matvörum, nema þegar fullyrt er um næringarfræðilega eiginleika í viðkomandi vöru. Kjósi matvælaframleiðandi að hafa næringargildismerkingu á sinni vöru þá er samt ekkert ákvæði sem segir að tilgreina verði magn transfitusýra í þeirri vöru. Sé hins vegar tilgreint á umbúðum að viðkomandi vara sé með “lágt innihald af transfitusýrum” þá skal magn þess getið í næringargildismerkingu undir fituhlutanum, sem myndi þá líta svona út:

Fita

Þar af

  • mettaðar fitusýrur
  • einómettaðar fitusýrur
  • fjölómettaðar fitusýrur
  • transfitusýrur

Öll matvæli eiga að vera með innihaldslýsingu, með örfáum undantekningum þó. Þar má nefna ferska og ómeðhöndlaða ávexti og grænmeti, sykur og salt. Með því að skoða innihaldslýsingu á vöru þá er hægt að gera ráð fyrir að viðkomandi vara innihaldi transfitusýrur ef á umbúðum stendur að hún innihaldi t.d. “að hluta til hert olía” eða “hálfhert olía”. Á ensku þýðir það “Partially hydrogenated oil” og á dönsku “delvist hærdet fedt/olie”svo dæmi séu nefnd. Sé fitan algerlega hert þá eru ekki neinar transfitusýrur til staðar.

Nýtt hámark í Danmörku

Þann 1. júní á þessu ári gengu í gildi lög í Danmörku um transfitusýrur í matarolíum, viðbiti og smjörlíki. þar er kveðið á um að áður tilgreindar vörur megi ekki innihalda meira en 2g af transfitusýrum í 100g af vöru. Þetta á líka við um smjörlíki sem er notað í kex, kökur og einnig um steikingarfeiti svo dæmi séu tekin.

Neysla á transfitusýrum í Danmörku er að meðaltali um 1g af  iðnaðarframleiddum transfitusýrum á dag á hverja manneskju, sem er að minnst kosti helmingi minna en neyslan á Íslandi, en engu að síður er talið þörf á þessum aðgerðum. Hér skal undirstrikað að einungis er verið að tala um transfitusýrur sem myndast við matvælavinnslu og er að finna t.d. í bökunarvörum, smjörlíki, steikingarfeiti o.s.f.r.v. en ekki í kjöt- og mjólkurvörum. Danmörk er með þessu fyrsta landið í heiminum sem setur takmarkandi reglur um iðnaðarframleiddar transfitusýrur í matvælum og  gilda þær einnig fyrir innflutt matvæli.

Þrýst á Evrópusambandið

Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið, FDA (Food and Drug Administration) hefur sett reglur sem taka gildi þann 1. janúar 2006, þar sem matvælaframleiðendum verður skylt að merkja magn transfitusýra í næringargildismerkingu matvæla. Ekki ljóst hvenær vænta megi samskonar reglna  í Evrópu en Danmörk hefur beitt miklum þrýstingi á Evrópusambandið (ESB) í þessum málum og þá helst með þeim hætti að skylda eigi matvælafyrirtækin til þess að minnka magn transfitusýra í matvælum eða útrýma þeim.

Höfundur er Jóhanna E. Torfadóttir, næringarfræðingur hjá Umhverfisstofnun.