Stök frétt

Umhverfisráðherra kynnti í gær drög að náttúrurverndaráætlun 2004 - 2008. Drögin byggja á faglegri samantekt Náttúrufræðistofnunar Íslands og umfangsmikilli skýrslu Umhverfisstofnunar: Náttúruverndaráætlun, aðferðarfræði - Tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar. Í náttúruverndaráætluninni er lögð áhersla á að festa í sessi nýja aðferðafræði við svæðisbundna náttúruvernd, sem á rætur að rekja til breyttrar hugmyndarfæði í málaflokknum. Í stuttu máli felst hún í því að skilgreina og skrásetja náttúruminjar sem þarfnast verndar og tryggja lágmarksvernd þeirra í neti friðlýstra svæða. Þetta er gert annarsvegar með verndun tveggja af stærstu bjargfuglabyggðum landsins, en hins vegar með því að koma á fót neti friðaðra svæða, sem tekur til búsvæða fimm fuglategunda sem Ísland ber alþjóðlega ábyrgð á samkvæmt viðmiðunum sem finna má í Bernarsamningnum og fleiri alþjóðlegum samþykktum. Um er að ræða tvær tegundir sjaldgæfra fuglategunda, flórgoða og haförn og tvær tegundir fargesta, margæs og rauðbrysting auk heiðagæsar.

Ákveðið var að vinna að þremur stórum verkefnum í náttúruvernd á tímabilinu 2004 - 2008 en þau eru að vinna að friðlýsingu fuglabyggða með alþjóðlegt verndargildi eins og áður er nefnt, stækkun þjóðgarðanna í Jökulsárgljúfrum og í Skaftafelli og stofnun Vatnajökulsþjóðgarðsog verndun svæða sem tengjast honum. Vatnajökull og tengd svæði eru í sérstöku verndarferli og eru því ekki hluti af náttúruverndaráætlun. Í áætluninni er lagt til að friðlýsa 14 svæði á tímabilinu 2004-2008. Svæðin sem lagt er til að vernda sem fuglabyggðir eru þessi;

Austara-Eylendið í Skagafirði,
Álftanes-Akrar-Löngufjörur,
Álftanes-Skerjafjörður,
Guðlaugstungur-Álfgeirstungur norðan Hofsjökuls,
Látrabjarg-Rauðasandur,
Vestmannaeyjar og
Öxarfjörður.

Auk þess eru nokkur svæði sem talin er ástæða til að friðlýsa á næstu fimm árum:

a) Lagt er til að tvö svæði Látraströnd-Náttfaravík og Njarðvík-Loðmundarfjörður, verði friðlýst fyrst og fremst vegna gildis þeirra fyrir vernd sjaldgæfra plöntutegunda. Þetta eru þau tvö svæði, þar sem flestar tegundir sjaldgæfra plöntutegunda er að finna á landinu.

b) Lagt er til að Geysir í Haukadalog Reykjanes-Eldvörp-Hafnarberg verði friðlýst fyrst og fremst vegna jarðfræðilegs verndargildis þeirra. Geysir er eitt þekktasta kennileiti landsins og nafntogaðasti goshver heims og Reykjanes er einstakt svæði á heimsvísu, þar má sjá framhald úthafshryggs á þurru landi, þar sem tvær jarðskorpuplötur gliðna í sundur.

c) Lagt er til að vernda eitt svæði vegna gróðurfars en það er Vatnshornsskógur í Skorradalshreppi. Skógurinn er lítt snortinn gamall birkiskógur og er birkið þar óvenju hávaxið samanborið við annað birki á Vesturlandi.

Á Umhverfisþingi þann 14. október n.k. hyggst umhverfisráðherra kynna og fjalla um þessi drög og í kjölfar þess verður náttúruverndaráætlun lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu. Viðauki þar sem er að finna ítarlegar upplýsingar um svæðin fjórtán verður dreift á Umhverfisþingi.