Stök frétt

Fuglaflensa er sjúkdómur í fuglum og berst fyrst og fremst á milli fugla. Líkur á að almenningur smitist af fuglaflensu af villtum fuglum, eða öðrum dýrategundum eins og köttum, eru nánast engar.

Þrátt fyrir það er mælt með eftirtöldum varúðarráðstöfunum til að draga enn frekar úr líkum á að fuglaflensusmit berist í menn:

  • Forðast skal snertingu við dauða eða sjúka fugla. Brýnið þetta sérstaklega fyrir börnum.
  • Þvoið hendurnar vandlega oft á dag með vatni og sápu, einkum áður en matar er neytt. Þurrkið hendurnar vel með
    hreinu handklæði eða pappírsþurrku.

Ráðleggingar við fund á dauðum fuglum

Óþarfi er að tilkynna um fund á stöku dauðum fuglum. Best er að láta fuglinn vera þar sem hann finnst. Þeim sem vilja samt sem áður fjarlægja fuglinn er ráðlagt að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum:

  • Grafið holu í jörðina fyrir fuglinn fremur en að setja hann í ruslatunnu.
  • Gætið þess að snerta fuglinn ekki með berum höndum heldur notið hanska, sem hent er að verkinu loknu, eða setjið fuglinn í holuna með skóflu.
  • Þekið fuglinn vel með jarðvegi.
  • Þvoið hendur vel með vatni og sápu og þurrkið hendurnar vandlega með hreinu handklæði eða pappírsþurrku að verkinu loknu.

Ef margir fuglar finnast (t.d. fleiri en 5) á takmörkuðu landssvæði skal hafa samband við héraðsdýralækni sem veitir ráðgjöf um næstu viðbrögð. Þetta á einkum við um dauðar álftir, gæsir og aðra votlendisfugla.

Aðgerðir sem hægt er að grípa til þar til náðst hefur í héraðsdýralækni eru eftirfarandi:

  • Tryggið að börn og húsdýr, einkum hundar og kettir, komist ekki í námunda við fuglana.
  • Ef fuglarnir eru úti á víðavangi er mikilvægt að merkja fundarstaðinn vel.
  • Birgið hræin ef mögulegt er.
  • Þvoið hendur vel með vatni og sápu og þurrkið hendurnar vandlega með hreinu handklæði eða pappírsþurrku við fyrsta tækifæri.

Ráðleggingar til eigenda alifugla

Varnir fyrir fuglana

Fylgist með fyrirmælum frá Landbúnaðarstofnun um aðgerðir á hverjum tíma.

Varnir fyrir heimilisfólk og gesti

  • Ekki vera með fugla inni í vistarverum manna.
  • Bannið börnum að snerta veika eða dauða fugla. Kennið þeim að segja fullorðnum frá um leið og þau verða vör við veika eða dauða fugla.
  • Þvoið ykkur vel um hendurnar með vatni og sápu og þurrkið með hreinu handklæði eða pappírsþurrku oft á dag, einkum áður en matar er neytt. Sjáið til þess að börnin þvoi sér líka.
  • Ef þið verðið vör við veika eða dauða fugla í fuglahópnum ykkar og grunar fuglaflensu skuluð þið láta fuglana
    vera. Hafið samband við héraðsdýralækni á viðkomandi umdæmisskrifstofu Landbúnaðarstofnunar sem metur 
    hvort ástæða sé til frekari rannsókna og fylgið ráðleggingum hans. Ef héraðsdýralæknir ákveður að koma á 
    staðinn til frekari athugana ber að tryggja eftirfarandi atriði þar til hann kemur á staðinn:
  • Tryggið að börn og húsdýr, einkum hundar og kettir, komist ekki í snertingu við fuglana. Hafið hunda og ketti í ól
    eða innanhúss.
  • Farið ekki með óhreina skó inn í vistarverur manna.
  • Þvoið ykkur vel um hendurnar með vatni og sápu og þurrkið með hreinu handklæði eða pappírsþurrku.
  • Borðið ekki afurðir veikra fugla eða fugla sem hafa látist af völdum sjúkdóms og notið þá ekki sem fóður fyrir önnur
    dýr.
  • Kjöt og egg frá heilbrigðum fuglum eru örugg fæða ef hún er fyllilega elduð.
  • Ef veikir fuglar eru í fuglahópnum ykkar og einhver heimilismanna veikist með hita, hósta eða hálssærindum, skal hafa samband við lækni án tafar og tilkynna um veikindin.

Meiri upplýsingar um fuglaflensu er að finna á vefsetrum Landlæknisembættisins, www.landlaeknir.is, og embætti yfirdýralæknis hjá Landbúnaðarstofnun, www.lbs.is