Stök frétt

Tekinn hefur verið í notkun Kortaskjár sem hefur að geyma yfirlitskort í mælikvarða 1:250 000 af öllu Íslandi. Á því er sýnt vegakerfi Íslands og er ökumönnum heimilt að aka á merktum vegum eða slóðum er birtast á kortinu.

Athygli er vakin á því að lög og reglur sem snerta utanvegaakstur eru: lög nr. 44/1999 um náttúruvernd og reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands nr. 528/2005 ásamt reglugerð nr. 879/2004 um Þjóðgarðinn Skaftafell og lög nr. 50/1987/Umferðarlög.

Í 17. gr. Náttúruverndarlaga segir:
Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega... Þetta er skýrt og afdráttarlaust en það eru undantekningar. Lögin heimila að aka á snævi þakinni og frosinni jörð ef ekki verða af því náttúruspjöll. Einnig gilda um tiltekin störf ákveðnar reglur, sjá reglugerð. Ólögmætur akstur utan vega varðar refsingu.

Náttúruspjöll eru skilgreind sem spjöll á gróðri, dýralífi, jarðvegi, jarðmyndunum og landslagi hvort sem um varanlegan eða tímabundinn skaða er að ræða.

Vegur er skilgreindur sem varanlegur vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað er að staðaldri til umferðar.

Samkvæmt umferðarlögum skal sá sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki bæta fyrir það tjón sem hlýst af notkun þess. Ábendingar um það sem betur má fara í kortinu eru vel þegnar á veffangið www.lmi.is eða www.ust.is Til að fá aðgang að "Á vegi" má annaðhvort smella á myndina eða hér.