Stök frétt

Nú þegar lokið hefur verið við að bjarga öllum skipsverjum af flutningaskipinu Wilson Muuga stýrir Umhverfisstofnun aðgerðum á strandstað vegna viðbragða við bráðamengun hafs og stranda.

Skal hér gerð stuttlega grein fyrir stöðu mála eftir fyrsta dag.

Nú þegar lokið hefur verið við að bjarga öllum skipsverjum af flutningaskipinu Wilson Muuga stýrir Umhverfisstofnun aðgerðum á strandstað vegna viðbragða við bráðamengun hafs og stranda.

Skal hér gerð stuttlega grein fyrir stöðu mála eftir fyrsta dag.

Vitað er að ástand skipsins er ekki gott. Botn skipsins er illa farinn og göt komin á marga af botntönkum þess. Ef ekki kemur eitthvað nýtt fram má gera ráð fyrir því að skipið sigli ekki að nýju.

Aðstæður á strandstað eru mjög slæmar, hvassviðri, sjógangur og stutt dagsbirta gera mönnum erfitt um vik að athafna sig. Horfur eru heldur ekki góðar þar sem áfram er gert ráð fyrir hvassviðri og straumur fer vaxandi. Umhverfisstofnun nýtur liðsinnis starfsmanna Olíudreifingar, skv. samningi þar að lútandi, og þessir aðilar ásamt öðrum sem að málinu koma munu vinna að því hörðum höndum að dæla olíunni í land. Aðstæður um borð í skipinu virðast heldur ekki vera með besta móti þar sem allnokkuð magn svartolíu er í botntönkum skipsins þar sem erfitt kann að reynast að ná til auk þess sem talið er að gat sé komið á tankana. Ekki er talið líklegt að það takist að ná allri olíunni úr skipinu og er gert ráð fyrir því að í besta falli muni nokkuð af olíunni leka út í sjó.

Samkvæmt veðurspám er gert ráð fyrir sunnan- og suðvestanáttum svo að segja eins langt og spár ná og má gera ráð fyrir því að sú olía sem kunni að leka úr skipinu fari norður eftir ströndinni.

Í næsta nágrenni skipsins eru svæði með viðkvæma og verðmæta náttúru. Hér má nefna að ströndin öll frá Hvalsnesi (þar sem skipið situr) og norður fyrir Garðskaga er mikilvægt fuglasvæði þar sem fuglar sækja fæðu svo að segja allan ársins hring (rauðskástrikað á mynd 1). Annað svipað svæði er fyrir sunnan strandstaðinn, við svokallaða Ósa. Þessi svæði eru sérstaklega mikilvæg um fartímann vor og haust þegar fjöldinn allur af fargestum sækja þangað næringu og hvíld en yfir vetrartímann geta þessir staðir einnig verið fjölsóttir. Sjónir manna beinast auk þess sérstaklega að leirum við Sandgerði og í Ósabotnum (gult á mynd 1) en almennt séð er vont að fá olíu í slíka setgerð. Umhverfisstofnun hefur hafist er handa við áætlanagerð og undirbúning að viðbrögðum sem hefjist um leið og það er framkvæmanlegt. Mengunarvarnabúnaður Umhverfisstofnunar verður fluttur á svæðið og hafður til taks.

Meðan veður er jafn slæmt og nú er lítið hægt að gera varðandi varnir eða hreinsun gegn olíu á sjó eða ströndum. Einnig er erfitt er að segja til um hvað verður um olíuna í því brimi og róti sem nú er. Reynt verður að fylgja eftir olíuflekkjum eftir því sem unnt er. Það er því auðsýnt að áríðandi er að ná eins miklu af olíu úr skipinu og hægt er og sem stendur er það mál á forgangslista Umhverfisstofnunar.

Settar verða nýjar upplýsingar um stöðu mála og framkvæmdir á vefsíðu Umhverfisstofnunar eftir því sem málinu vindur fram.



Mynd 1. Viðkvæm svæði í nágrenni við strandstað Wilson Muuga.
Gul svæði leirur, skástrikuð rauð svæði mikilvæg fuglasvæði.
Unnið úr gögnum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Landmælingum Íslands.