Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Vonandi verður þetta nýbyrjaða ár gott náttúruverndar- og útivistar ár. Þetta er merkisár í sögu náttúruverndar því Skaftafellsþjóðgarður verður 40 ára á þessu ári.

Flestir þeir gestir sem heimsækja Skaftafell eru komnir til að njóta útivistar og fegurðar náttúrunnar. Mjög margir ganga inn að Skaftafellsjökli, því jökullinn hefur mikið aðdráttarafl. Sú gönguleið er stutt og aðgengileg öllum. Stígurinn er lagður olíumöl og telst hjólastólafær. Nýverið var þessi stígur gerður að fræðslustíg, með 14 tölusettum stikum, þar sem ferðamenn geta lesið sér til um ýmis jarðfræðileg fyrirbæri í sérstökum bæklingi um þessa gönguleið. Þar má t.d. lesa um móbergsmyndun,bergganga, hop Skaftafellsjökuls, jökulker og jökulöldur.

Undanfarnar vikur hafa þrír menn á vegum Húsafriðunarnefndar ríkisins unnið að viðgerð á Selbænum í Skaftafelli, sem er gamall torfbær með fjósbaðstofu. Þetta eru Viglundur Kristjánsson, Kristjón Guðmarsson og Esra Ósmann 17 ára sonur Víglundar. Þeir hafa verið að endurhlaða tvo veggi, annars vegar gangnavegg, sem liggur úr Selbænum í fjósið og hins vegar vegg í sjálfu fjósinu, undir fjósbaðstofunni. Grjótið í veggjunum er blágrýti, fengið í Skaftafelli og mega þeir ekki nota annað grjót við verkið, einungis bæta við samskonar grjóti ef vantar.
Víglundur lærði hleðslugerð af afa sínum; Sigurþóri Skæringssyni frá Rauðafelli, Austur-Eyjafjöllum og var aðeins 14 ára gamall þegar hann byrjaði að vinna með honum. Hann hefur unnið sem hleðslumaður í 30 ár með hléum. Aðal vandinn við vehggjahleðslu er að fá grjótið til að falla hvað að öðru og ná bindingu í hleðsluna. Grjótið er ekki hoggið til. Einnig er mikilvægt að stutla vel, þ.e. troða moldina vel í moldarveggnum bak við steinana svo þeir haggist síður. Að lokum er lagður dúkur yfir veggina, svo vatn komist ekki í þá en það er versti óvinur moldarinnar í grjótveggjunum.
Áður fyrr var gert hlé á hleðslustörfum á veturna, en nú er hraðinn orðinn svo mikill í þjóðfélaginu ásamt mildari vetrum að hægt er að vinna að hleðslustörf allt árið um kring. Það er líka forsenda fyrir því að fá menn í vinnu að hún sé ekki tímabundin heldur stöðug.

Þegar hleðslumenn hafa lokið sínu starfi mun smiðurinn Þórhallur Hólmgeirsson koma og ganga frá þiljum og öðru tréverki.

Í Sandaseli í Skaftafelli er einnig unnið að endurbótum. Húsið var áður fjárhús og á því eru fjórar burstir. Á undanförnum árum hefur húsinu smám saman verið breytt í vistarverur fyrir landverði og sjálfboðaliða, og er nú verið að ljúka síðasta hlutanum í vestustu burstinni. Þar er verið að einangra veggi og klæða að innan stóra stofu, sem mun m.a. verða notuð fyrir Náttúruskólann í Skaftafelli. Það er Benedikt Steinþórsson í Svínafelli, sem sér um verkið. Í húsinu var malargólf, en í blíðunni fyrir jól náðist að steypa gólfið með samhentu átaki góðra manna úr sveitinni.

Um miðjan áttunda áratuginn var reist hér þjónustumiðstöð, íbúðir fyrir landverði og snyrtingar af miklum stórhug og glæsibrag. Þessar byggingar hafa ekki fengið það viðhald sem þær þarfnast, auk þess sem rekstarfyrirkomulag innan þjónustumiðstöðvar hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Nú er svo komið að brýn nauðsyn er á að endurnýja salernishús, svo það teljist mannsæmandi auk þess sem þjónustuhús þarfnast töluverðra endurbóta og lagfæringar, svo koma megi fyrir endurnýjaðri sýningu fyrir gesti og betri aðstöðu til veitingasölu.

Árið 1999 var opnuð Gestastofa í Skaftafelli. Tímabært er orðið að endurnýja sýninguna sem þá var sett upp við erfiðar aðstæður. Þann 7. og 8. janúar sl. komu góðir gestir í vinnuferð til okkar í Skaftafell. Það voru hönnuðirnir Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, Jón Ásgeir Hreinsson og Ólafur Ómarsson frá fyrirtækinu Studio Bility á Íslandi. Þau komu til að líta á húsakynni og aðstæður og gera sér grein fyrir því hvernig gera má gestastofuna fjölbreyttari og meira aðlaðandi fyrir unga sem aldna. Þau unnu að sýningunni í Gljúfrastofu, sem opnuð verður í vor í Þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum. Einnig hittu þau stjórn Kirkjubæjarstofu að máli og skoðuðu fyrirhugaða staðsetningu á gestastofu á Klaustri, sem rísa á í tengslum við Skaftafellsþjóðgarð.

Jöklarnir í Öræfunum eru aldrei fegurri en að vetrarlagi með tærum geislandi bláma sínum. Láréttir geislar sólar varpa annarskonar birtu á landið og kyrrð ríkir yfir öllu. Þó heilsa manni af og til hrafnar, einstaka rjúpur, hópur af auðnutittlingum flögrar um og nælir sér í birkifræ og spor eftir tófur og mýs sjást stöku sinnum ef snjóar.

Með kveðju frá Skaftafelli

Hafdís S. Roysdóttir