Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur skrifað undir samstarfssamning við Loftmyndir ehf um vefaðgengi að myndkortum Loftmynda af öllu Íslandi. Undir samninginn skrifuðu Davíð Egilson forstjóri UST og Örn Arnar Ingólfsson framkvæmdastjóri Loftmynda ehf.

Að sögn Davíðs Egilsonar forstjóra UST hefur samningurinn mikið gildi fyrir starfsemi stofnunarinnar þegar kemur að hnitun landfræðilegra upplýsinga s.s marka þjóðgarða og náttúruverndarsvæða. Aðgengi að bestu fáanlegu kortum og loftmyndum hverju sinni er stofnuninni nauðsynlegt. Komið verður upp samþættingu á gögnum frá Loftmyndum ehf. og skjalakerfi stofnunarinnar. Starfsmenn Umhverfisstofnunar munu þá t.a.m. geta kallað eftir myndkortum sem sýna nágrenni eftirlitsskyldrar starfsemi sem og svæða þar sem mengunarhætta er fyrir hendi. Einnig verður hægt að staðsetja nýja starfsemi með aðstoð hnitsettra heimilisfanga í eigu Loftmynda.

Með þessum samningi tryggir Umhverfisstofnun að gagnasöfnun hennar verður samþættanleg við gögn annarra stofnana sem safna landfræðilega tengdum gögnum sem og að geta nýtt sér gögn annarra en framboð á slíku mun fara ört vaxandi á næstu árum. Loftmyndir munu síðan miðla gögnum Umhverfisstofnunar um útlínumörk þjóðgarða endurgjaldslaust til almennings á vefnum www.map24.is.