Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Frá því um helgina hafa verið að sjást fuglar sem lent hafa í olíumengun við Hvalsnes og voru tveir fuglar handsamaðir og sendir í Húsdýragarðinn í gær til hreinsunar og sýnatöku

Ekki er enn ljóst hvaðan olían er sem fuglarnir hafa lent í en með sýnunum ætti að vera hægt að ganga úr skugga um hvort hún er upprunnin úr flaki Wilson Muuga. Í dag og fram á fimmtudag er hæsti straumur. Við slíkar aðstæður er hugsanlegt að restar af olíu sem enn leynast í botntönkum skipsins nái að leka um rifur á þeim á háfjörunni þegar sjávarborð stendur lægra en rifurnar. Þetta er í samræmi við það sem Umhverfisstofnun hefur áður upplýst að hætta kunni að vera á að þær restar af olíu sem eru í botntönkunum kunni að leka út við slíkar aðstæður.

Starfsmenn Olíudreifingar eru í skipinu í dag að vinna við að dæla upp úr lest skipsins en á háflóði er von til þess að þær restar sem í botntönkunum eru þrýstist upp í lestina. Ekki er hægt að ná olíunni sem enn er hugsanlega í botntönkunum á annan hátt án þess að tæma lestarnar af sjó sem aftur á móti kynni að valda því að skipið yrði óstöðugra. Slíkt verður tæpast gert fyrr en fyrir liggur með hvaða hætti skipið verður fjarlægt. Fylgst verður náið með hvort olía lekur undan skipinu á háfjörunni kl. 15 í dag.