Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í gær og nótt var dælt upp úr lest Wilson Muuga og núna er búið að dæla í 27 þúsund lítra ker og má áætla að þar hafi komið upp allt að 20 tonn af svartolíu. Þyrla Landhelgisgæslunnar er að flytja kerin frá borði til lands og áfram verður dælt fram eftir degi í dag. Þá hefur samtals verið dælt um 50 tonnum af svartolíu úr botntönkum og má þá áætla að í allt hafi ekki farið út nema á milli 10- 20 tonn af svartolíu auk dísilolíunnar, 14 tonn, sem fór er skipið strandaði. Verður að telja þetta góðan árangur. Hugsanlega er enn einhver olía í tönkunum. Gera má ráð fyrir að á undanförnum dögum hafi einhver olía lekið undan skipinu á háfjöru, þó tæplega meira en nokkur hundruð lítrar.

í fjörunni í grennd við strandstað er olíumengað þang. Búið er að flytja á staðinn kör sem ætlunin er að moka þaranum upp í og flytja á brott. Verður það verk unnið af sjálfboðaliðum og í samvinnu við heilbrigðiseftirlit á staðnum.

Ástæða þess að olían sem lekið hefur út undanfarna daga hefur ekki leyst upp og horfið stafar af veðurskilyrðum. Veður hefur verið stillt undanfarið og sjór lítill en rifja má upp að stormar og mikil ölduhæð réðu ríkjum fyrstu vikuna eftir strandið þann 19. desember sl.