Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Út er komin skýrsla Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga; Varnaðarmerktar efnavörur; könnun í grunnskólum á merkingum efnavara og á aðstöðu til að geyma og nota þau.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir könnun á geymslu og notkun varnaðarmerktra efna og efnavara í efnafræði- og smíðakennslu í grunnskólum landsins. Skoðuð var efnavara í verklegri efnafræði- og smíðakennslu. Könnunin var framkvæmd á 7 heilbrigðiseftirlitssvæðum, þ.e. svæðum Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Alls voru 63 skólar heimsóttir, en á landinu öllu eru 183 grunnskólar. Markmiðið með könnuninni var að kanna hversu víðtæk notkun varnaðarmerktra efnavara er við smíðakennslu og við verklega kennslu í efnafræði. Einnig að kanna aðbúnað við notkun efnanna, merkingu þeirra og leiðbeiningar við notkun.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að:

  1. Mikið er um gömul efni í hillum og geymslum.
  2. Unnið er með varnaðarmerkta efnavöru, jafnvel efnavörur sem flokkaðar eru hættulegar heilsu eða sem eitur.
  3. Mikið vantar upp á að merkingar séu í samræmi við reglur, þ.e. að varnaðarmerktar efnavörur séu merktar á íslensku. Í undantekningartilvikum lágu fyrir öryggisblöð fyrir varnaðarmerktar efnavörur.
  4. Mun fátíðara er að læst geymsla sé fyrir hættuleg efni í smíðastofum en efnafræðistofum, þó verið sé að vinna með eða geyma álíka hættuleg efni.
  5. Stinkskápur eða samsvarandi búnaður er aðeins til staðar í fáeinum af þeim smíðastofum sem könnunin nær til.
  6. Loftræsing er viðunandi eða góð í um það bil helmingi skóla en léleg eða frekar léleg í um það bil helmingi af þeim skólum sem könnunin nær til, bæði í smíðastofum og efnafræðistofum.

Í framhaldi af niðurstöðum könnunarinnar eru lagðar fram eftirfarandi tillögur:

  1. Haldið verði námskeið fyrir grunnskólakennara um notkun og merkingar hættulegra efna.
  2. Samdar verði leiðbeinandi reglur eða reglugerð um notkun efna við kennslu í grunnskólum.
  3. Gerð verði athugun á hvort nauðsynlegt þyki að nota efnavöru sem flokkuð er sem eitur í grunnskólum. Þau efni sem ekki er verið að nota eða eru gömul verði skilað til viðurkenndrar móttökustöðvar. Efni sem á að nota verði skráð og geymd í læstri hirslu.
  4. Loftræsing verði bætt í sérkennslustofum t.d. með því að setja upp staðbundið frásog, þar sem verið er að meðhöndla hættuleg efni.
  5. Skipt verði út hættulegum efnum og notuð hættuminni efni í staðinn.
  6. Aðstaða til að geyma og nota hættuleg efni í myndmenntastofum grunnskólanna verði skoðuð og bætt úr aðstöðu þar í samræmi við niðurstöður.

Skýrslan á pdf