Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Bresku sjálfboðaliðasamtökin, BTCV hafa veitt Umhverfisstofnun „Green Heroes Award” viðurkenningu á alþjóðasvæði sínu. Þessi svæðisviðurkenning er veitt fyrir gott samstarf á milli Umhverfisstofnunar og BTCV vegna starfs erlendra sjálfboðaliða hér á landi, í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum við lagningu stíga og viðhald þeirra.

BCTV eru ein af fremstu sjálfboðaliðasamtökum í Bretlandi og á sl. ári unnu á þeirra vegum um 140.000 sjálfboðaliðar bæði innan Bretlands og víða um heim. Sir David Attenborough er varaformaður BTCV. Einkunnarorð samtakanna eru „Inspiring people, improving places” („Hvetja fólk, bæta svæði”) en í þeim felst markmið um að skapa betra umhverfi þar sem fólki af öllum menningaruppruna er sýnd virðing, því vel tekið og boðin þátttaka í uppbyggingunni.

Afhending viðurkenningarinnar fer fram í Breska sendiráðinu í Reykjavík í apríl.

Í meira en 25 ár hafa sjálfboðaliðar á vegum BTCV unnið yfir sumarmánuðina á Íslandi.
Allt frá upphafi hefur starfsemi BTCV á Íslandi lagt áherslu á viðgerðir og endurbætur á stígakerfi þjóðgarða og friðlanda. Einnig hefur verið lögð áhersla á samstarf við önnur samtök og er nú lögð aukin áhersla á þjálfun og verktækni.

Unnið að náttúruvernd í fríinu
Flokkar erlendra sjálfboðaliða vinna á hverju sumri í þjóðgörðunum í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum, friðlandi að Fjallabaki og verndarsvæði Mývatns og Laxár við lagfæringar á göngustígum. Hóparnir koma til Íslands og dvelja hér í tvær vikur í vinnubúðum á verndarsvæðunum.

Sjálfboðaliðar til lengri tíma
Verkefni Íslandsdeildar BTCV hefur einnig fengið til starfa sjálfboðaliða þar sem hver sjálfboðaliði vinnur allt að 12 vikur yfir sumarmánuðina. Þessir sjálfboðaliðar starfa sem hópstjórar og einnig við sérstök verkefni eins, t.d. í þjóðgarðinum Snæfellsjökli.