Stök frétt

Bæklingurinn kom fyrst út árið 2001 og vakti verðskuldaða eftirtekt þar sem mörg börn hér á landi hafa verið hætt komin þegar smáhlutir, matur eða sælgæti hefur staðið í hálsi.

Í nýrri útgáfu bæklingsins er að finna ábendingar til foreldra og forráðamanna barna um hvað skal varast varðandi sælgæti og smáhluti og einnig nýjar upplýsingar varðandi skyndihjálp þegar aðskotahlutir festast í hálsi ungbarna og barna eldri en eins árs.

Upphaf útgáfunnar má rekja til þess að haustið 2000 var farið af stað með verkefni, þar sem sælgæti á íslenskum markaði var kannað með tilliti til stærðar, lögunar og annarra eiginleika. Skýrsla um verkefnið var gefin út í desember 2000 og í framhaldi af því, kom bæklingurinn „Sælgæti og smáhlutir geta valdið köfnun!” út árið 2001.

Meginmarkmið með skýrslunni og útgáfu bæklingsins var að efla fræðslu og umræðu um sælgæti og aðra smáhluti sem geta valdið hættu vegna stærðar, þyngdar eða lögunnar sinnar. Enn fremur miðaðist útgáfan að því að upplýsa almenning um hvers ber að gæta þegar við val á sælgæti og til hvaða aðgerða ber að grípa ef aðskotahlutir festast í koki barns.

Frá árinu 2001 hafa aðferðir við skyndihjálp verið endurskoðaðar og einnig hafa margar ábendingar borist útgefendum frá foreldrum og neytendum sérstaklega hvað varðar stærð á sælgæti. Því var talið mikilvægt og nauðsynlegt að endurnýja bæklinginn.

Bæklingnum verður dreift á alla leikskóla og grunnskóla í landinu og jafnframt verður hægt að nálgast hann á heilsugæslustöðvum um land allt og hjá þeim aðilum sem unnu að nýjustu útgáfu hans.

Jafnframt skal bent á að nánari upplýsingar er að finna á eftirfarandi heimasíðum: www.ust.is, www.lydheilsustod.is, www.neytendastofa.is, og www.redcross.is.