Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Þegar spurt er hvaða áhrif hlýnun jarðar hafi á náttúru og mannlíf á jörðinni er nánast sama hvert litið er. Á Alþjóðadegi umhverfisins spyrja Sameinuðu þjóðirnar: Hvað segir ísbjörninn? Hvað segir bóndinn? Hvað segir eyjarskegginn? Hvað segja tryggingafélögin? Hvað segir frumbygginn? Hvað segir þú?

Yfirskrift Alþjóðadags umhverfisins 5. júní 2007 er Bráðnun íss – brennandi mál? Það er vel við hæfi, þar sem Alþjóða heimskautsárið 2007-2008 er haldið hátíðlegt um þessar mundir. Það eru Sameinuðu þjóðirnar sem standa að Alþjóðadegi umhverfisins

Tilgangur dagsins er að minna almenning og stjórnvöld á mikilvægi umhverfisins og til að gera umhverfismál sýnileg. Hátíðarhöldin hvetja almenning til að gerast virkir þátttakendur í sjálfbærri þróun og eflir skilning samfélags manna á nauðsyn þess að breyta afstöðu til umhverfismála þannig að allir menn og allar þjóðir geti notið öruggrar framtíðar.

Loftslagsbreytingar vegna útblásturs iðnríkjanna á svokölluðum gróðurhúsalofttegundum eru þegar farnar að ógna lífríki og náttúru á heimskautasvæðunum. Hlýnun á norðurskautinu er tvöfalt hraðari en hlýnun lofthjúps jarðar að meðaltali.

Útbreiðsla sífrera og þykkt heimskautaíssins fer minnkandi, og stór svæði sem áður voru þakinn ísi um aldir eru óðum að bráðna á meiri hraða en nokkurn órar. Mannlíf og vistkerfi á norðurslóðum hafa nú þegar orðið fyrir óbætanlegu tjóni. Búsvæði hafa eyðilagst, samfélög frumbyggja hafa þegar orðið fyrir áföllum vegna bráðnunar ísa. Íbúar á öðrum landssvæðum fjarri pólsvæðunum munu í framtíðinni upplifa hækkun sjávarborðs, þar sem lálendar eyjar og strandsvæði fara í kaf vegna bráðnunar heimskautaíssins.

Á hverju ári er ein borg valin til að vera í fararbroddi fyrir alþjóðaumhverfisdeginum og helgast áherslurnar að nokkru leyti af staðsetningu hennar í heiminum. Í ár er það Tromsö, borg norðan heimskautsbaugs í Noregi. Þar var í gær kynnt skýrsla 70 vísindamanna um ógnvekjandi framtíðarsýn um áframhaldandi hlýnun jarðar.