Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í sumar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum fyrir gesti, þ.a. m. gönguferðir, kvöldvökur og barnastundir. Föst dagskrá er yfir háannatímann, júlí - ágúst og er hún gestum að kostnaðarlausu. Þar fyrir utan má hafa samband við þjóðgarðsvörð (465 2359) sem getur með góðum fyrirvara skipulagt gönguferðir eða aðra dagskrá fyrir hópa sé þess óskað. Skólahópar eru hvattir til þess að nýta sér þá þjónustu.

Gljúfrastofa

Gljúfrastofa, gestastofa og upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins í Jökulsár-gljúfrum var opnuð formlega á sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl s.l. Í Gljúfrastofu eru veittar allar upplýsingar um þjóðgarðinn, gistimöguleika á svæðinu, áætlunarferðir og margt fleira. Gljúfrastofa er opin alla daga fram til 30. september og er opnunartíminn lengstur yfir hásumartímann. Aðgangur er ókeypis.

Í Gljúfrastofu er glæsileg sýning um náttúrufar og sögu Jökulsárgljúfra. Þar geta gestir fræðst um svæðið, myndun þess, náttúrufar, lífríki og sögu, á gagnvirkan og skemmtilegan hátt. Hönnuðir sýningar eru þau Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, Jón Ásgeir Hreinsson og Ólafur Ómarsson hjá Studio Bility. Textagerð var í höndum starfsfólks þjóðgarðsins og Sigrúnar Helgadóttur.