Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í janúar árið 2002 gaf Evrópusambandið út reglugerð nr. 178/2002/EC um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla. Þessi reglugerð og aðrar reglugerðir henni tengdri hafa nú verið teknar upp í EES samninginn og taka að hluta til gildi hér á landi í maí 2008.

Grunnmarkmið reglugerðarinnar er að vernda líf og heilsu manna og tryggja jafnframt frjálst flæði vöru á EES svæðinu.

Reglugerðin tekur einnig til fóðurs og skapar grunvöll fyrir breytingar á fyrirkomulagi matvæla- og fóðureftirlits innan ESB, þ.e. heildarsýn á matvæli og fóður frá hafi/haga til maga.

Ein megin breytingin sem varð í kjölfar útgáfu reglugerðarinnar er stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu, sem er staðsett í Parma á Ítalíu. Hlutverk stofnunarinnar er að framkvæma áhættumat og kynna aðildarríkjum, hagsmunaaðilum og almenningi um niðurstöður slíks mats og annað sem hún telur máli skipta varðandi öryggi matvæla. Stofnuninni er ætlað að vera sjálfstæð og óháð og með henni er skilið á milli áhættustýringar og áhættumats/áhættukynningar.

Annar meginþáttur í reglugerð 178/2002/EC er sú áhersla sem lögð er á rekjanleika í matvælaframleiðslu allt frá frumframleiðslu að munni neytenda. Þá er lögð áhersla á ábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila á vöru sinni og er það til samræmis við ákvæði í íslensku matvælalögunum en nýjung í löggjöf ESB.

Í kjölfar af reglugerðar 178/2002/EC hafa verið gefnar út fjórar reglugerðir um heilbrigðiskröfur við framleiðslu og dreifingu matvæla og opinbert eftirlit með matvælum:

reglugerð 852/2004/EC um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, reglugerð 853/2004/EC um sérstakar heilbrigðiskröfur vegna dýraafurða, 854/2004/EC um sérstakar reglur um opinbert eftirlit með framleiðslu dýraafurða og reglugerð 882/2004/EC um opinbert eftirlit.

Tvær þessara reglugerða snerta heilbrigðiskröfur og opinbert eftirlit með matvælum sem ekki eru dýraafurðir, og þar af leiðandi starfsemi Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og þeirra fyrirtækja sem eru undir eftirliti Heilbrigðiseftirliti sveitarfélagana, en það eru reglugerðir nr. 852/2004/EC og 882/2004/EC. Hinar tvær reglugerðirnar um heilbrigðiskröfur og opinbert eftirlit, nr. 853/2004 og 854/2004 eru um dýraafurðir og eftirlit.

 Hér er um að ræða reglugerðir sem  birta á  orðrétt til að tryggja samræmingu um allt Evrópska efnahagssvæðið.

 Í reglugerð 852/2004/EC um heilbrigðiskröfur við framleiðslu og dreifingu matvæla eru lagðar grunnlínur varðandi heilbrigðiskröfur við framleiðslu og dreifingu matvæla. Reglugerðinni er beint að matvælafyrirtækjum og stjórnendum þeirra, en þeir bera ábyrgð á framleiðslu sinni og því að tryggja rekjanleika hennar, enda er neytendavernd grunnmarkmið reglugerðarinnar. Hlutverk eftirlitsaðila er að sannreyna að fyrirtæki uppfylli kröfur reglugerðarinnar og skal það gert í samræmi við reglugerð 882/2004/EC.

 Í reglugerðinni eru settar fram almennar reglur sem rekstraraðilar matvælafyrirtækja skulu fylgja varðandi hollustuhætti.

 Þar kemur m.a.  fram.

  • Að ábyrgð á öryggi matvæla liggur hjá stjórnendum matvælafyrirtækja.
  • Að tryggja þurfi öryggi matvæla gegnum alla matvælakeðjuna frá frumframleiðslu.
  • Að fyrirtæki skuli starfrækja  innra eftirlit byggt á grunnreglum HACCP
  • Skilgreining á örverufræðilegum viðmiðum
  • Kröfur til innfluttra matvæla

 Í reglugerð 882/2004/EC  er fjallað um opinbert eftirlit til að tryggja að farið sé að reglum um matvæla- og fóðurframleiðslu og dýravelferð. Í reglugerðinni  eru settar fram almennar reglur um opinbert eftirlit með matvælum og fóðri, og er henni ætlað að auka neytendavernd og er ítrekað að ábyrgðin liggi hjá rekstraraðilum matvælafyrirtækja.

 Nýjar áherslur koma fram í inngangsorðum og eru útfærðar í einstökum greinum t.d. að eftirlit skuli byggt á áhættumati,  vera einsleitt og hlutlaust og að eftirlitsmenn skuli hafa tilskylda menntun og færni til að sinna því. Jafnframt eru ákvæði um hvernig innflutningseftirliti með matvælum og fóðri skuli háttað.