Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Hátt í 10 þúsund rjúpnaveiðimenn hafa í dag fengið sent bréf frá Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra í tilefni af því að rjúpnaveiðin hefst á morgun.
Bréf umhverfisráðherra til veiðimanna hljóðar svo:

Ágæti veiðimaður!

Í haust verða veiðar á rjúpu eingöngu leyfðar í nóvembermánuði, fjóra daga vikunnar. Þetta er gert í ljósi niðurstöðu rjúpnatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands sem sýndi að fækkað hefur í varpstofni rjúpunnar um 70.000 fugla frá því í fyrra. Við aðstæður sem þessar ber stjórnvöldum að gæta ítrustu varfærni við ákvörðun um veiðistjórnun.

Ég hef því ákveðið að fækka veiðidögum úr 26 í 18, viðhalda griðlandi rjúpu á Suðvesturlandi og framlengja sölubanni á rjúpu og rjúpnaafurðum. Fækkun veiðidaga á ekki að koma niður á þorra skotveiðimanna. Breytingin mun hinsvegar verst koma við þá fáu magnveiðimenn sem eftir eru.

Undanfarin ár hafa skotveiðimenn brugðist vel við óskum umhverfisráðuneytisins um hófsamar og ábyrgar veiðar. Rjúpnaskyttur bera mikla ábyrgð á því að vel takist til við veiðarnar í haust og eiga jafnframt mikilla hagsmuna að gæta að vel takist til. Ég vil þess vegna hvetja veiðimenn til þess að leggja sitt af mörkum og skjóta ekki fleiri rjúpur en þeir þurfa fyrir sig og sína. Þannig stuðla þeir að því að áfram verði gengið til rjúpna á Íslandi um ókomna framtíð.

Að lokum óska ég veiðimönnum ánægjulegrar útivistar í íslenskri náttúru.

Þórunn Sveinbjarnardóttir,
umhverfisráðherra.