Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Stofnfundur Samtaka náttúru- og útiskóla verður haldinn laugardaginn 3. nóvember kl. 10-16 í Kennaraháskóla Íslands.

„Æ fleiri skólar leggja stund á útikennslu og leita leiða í nánasta umhverfi til að efla slíkt nám,“ segir Helena Óladóttir verkefnastjóri Náttúruskóla Reykjavíkur á heimasíðu Umhverfissviðs Reykjavíkur. Helena segir áhuga á umhverfismálum og útikennslu mjög vaxandi á Íslandi. „Víðsvegar um landið er nú í boði fjölbreytt fræðsla um náttúru og umhverfi og á mörgum stöðum fer fram náið samstarf skóla og aðila á vegum ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja um fræðslu á vettvangi,“

Samtökunum SNÚ er ætlað að vera bakland fyrir þá sem standa að og sinna útikennslu og fræðslu. Helena segir að innan þjóðgarðanna, náttúrustofa og fræðasetra búi mikil þekking á umhverfismennt og útikennslu og að margar stofnanir hafi einnig myndað góð tengsl við erlendar stofnanir og starfsfólk sótt endurmenntun sína til margra landa.

Fundurinn á laugardaginn hefst á ávarpi Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra og á dagskrá eru ýmis fræðsluerindi um umhverfisvitund og útikennslu auk kynninga á fræðsludagskrá þjóðgarða og fræðslusetra hvaðanæva af landinu. Fundurinn er opinn öllu áhugafólki um útikennslu og náttúruskóla.

Tenglar