Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Strandstaður flutningaskipsins Axels austan við Hornafjörð

Eins og lýst hefur verið í fréttum, steytti flutningaskipið Axel á skeri skammt austan við innsiglinguna til Hornafjarðar kl. 8:15 í morgun. Skipið náðist fljótlega af strandstað en þar sem aðalvél þess virkaði ekki til að byrja með fóru björgunarskipið Ingibjörg ásamt lóðsbáti á staðinn og settu taug í skipið. Eftir að aðalvél fór aftur í gang lagði Axel af stað fyrir eigin vélarafli í fylgd Ingibjargar þar til varðskipið Týr tók við og mun fylgja flutningaskipinu til næstu öruggu hafnar sem er Fáskrúðsfjörður þar sem skipið verður skoðað.

Mengunarvarnabúnaður frá höfninni á Reyðarfirði hefur verið fluttur til Fáskrúðsfjarðar og verður hafður til taks ef þörf er á. Fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Austurlands mun fylgjast með stöðu mála f.h. Umhverfisstofnunar.

Einhver göt hafa komið á skipið og olíubrák sást frá skipinu á strandstað. Sú brák hvarf og ekki sást meira koma frá flutningaskipinu. Fjörur við Hornafjörð hafa verið gengnar og leitað eftir brák á sjó og er það niðurstaðan að ekkert kalli á frekari viðbrögð þar.

Umhverfisstofnun fylgist áfram með framvindu málsins.