Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun og JPV útgáfa hafa samið um útgáfu bókarinnar Veiðar á villtum fuglum og spendýrum eftir Einar Guðmann sérfræðing hjá Umhverfisstofnun. Bókin er samin sem kennslubók fyrir verðandi skotveiðimenn sem sitja undirbúningsnámskeið fyrir hæfnispróf sem gefur þeim réttindi til að sækja um veiðikort hjá Umhverfisstofnun.

Með samningnum verður bókin fáanleg á almennum markaði en fram að þessu hafa verðandi veiðimenn eingöngu fengið hana í hendur og löngu ljóst að þörfin fyrir bók af þessu tagi nær langt út fyrir raðir þeirra.

Samningurinn felst í í því að JPV mun sjá Umhverfistofnun fyrir nægilegum fjölda eintaka árlega til að mæta þörfinni vegna skotveiðinámskeiða en að öðru leyti er útgáfa og dreifing bókarinnar í höndum JPV.

Hér er um veglega bók að ræða, ríkulega myndskreytta, þar sem öllu er lýtur að skotveiðum á Íslandi eru gerð ítarleg skil. Fjallað er um veiðiaðferðir, veiðitímabil, tegundir veiðibráðar og leyfilegar gerðir skotvopna og siðfræði skotveiða en öllu þessu er ætlað að fræða núverandi og verðandi skotveiðimenn svo umgengni um íslenska náttúru og veiðistofna hennar verði með sem bestum hætti.

Á myndinni eru Jóhann Páll Valdimarsson forstjóri JPV útgáfu, Ellý K. Guðmundsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar og Einar Guðmann höfundur bókarinnar.