Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Á yfirstandandi ári hefur verið unnin mikil vinna við endurskipulag innviða Umhverfisstofnunar og voru niðurstöður þeirrar vinnu kynntar starfsmönnum í byrjun nóvember. Grundvallarbreytingin felst í því að fagsviðum stofnunarinnar fækkar úr fimm í tvö, svið náttúru- og dýraverndar og svið hollustu- og mengunarvarna og fellur starfsemi fyrri fagsviða undir hin nýju svið með skiptingu í deildir eftir eðli verkefna. Auk fagsviðanna tveggja eru þrjú stoðsvið, svið upplýsinga- og fræðslu, svið stjórnsýslu- og lögfræði og svið fjármála- og reksturs en í núgildandi skipuriti var aðeins þetta eina stoðsvið. Breytingar taka gildi um næstu áramót, þann 1. janúar 2008.

Eðlilega hefur orðið nokkur umræða um þessar breytingar enda hafa þær í för með sér tilfærslur einstakra starfsmanna á milli sviða en ekki verða breytingar á starfsstöðvum þeirra. Með þessu gefst einnig tækifæri til að víkka út starfssvið ákveðinna starfseininga og má nefna að á Akureyrarskrifstofu stofnunarinnar sem til þessa hefur eingöngu verið skipuð starfsmönnum veiðistjórnunarsviðs gefst nú tækifæri til að staðsetja starfsmenn annarra sviða og þar með uppfylla þær væntingar að skrifstofan verði svæðiskrifstofa Umhverfisstofnunar allrar en ekki einungis eins tiltekins sviðs.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að vinnustöðvar starfsmanna Umhverfisstofnunar eru víða um land þó aðalstöðvarnar séu í Reykjavík með flesta starfsmenn. Starfsmenn eru t.a.m. á Egilsstöðum, í þjóðgörðunum í Skaftafelli, Jökulsárgljúfrum og Snæfellsnesi, auk landvarða á friðlýstum svæðum viða um land. Á næsta ári munu bætast við starfsmenn á Ísafirði og í Heimaey og er því ljóst að fjölgun starfsmanna Umhverfisstofnunar á sér stað á landsbyggðinni en ekki í Reykjavík.