Stök frétt

Höfundur myndar: Jóhann Óli Hilmarsson

Ísland tekur þátt nýrri Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins fyrir tímabilið 2007-2013. (Northern Periphery Programme - NPP). Þátttökulöndin auk Íslands eru Finnland, Svíþjóð, Skotland, Norður Írland, Írland, Noregur,Grænland og Færeyjar. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að bættu atvinnu- og  efnahagslífi auk eflingar búsetuþátta með fjölþjóða samstarfsverkefnum á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Áhersla er m.a. lögð á að koma í veg fyrir að landamæri þjóðríkja séu hindrun í samstarfi og framþróun byggða og atvinnulífs. Verkefnin innan NPP skapa mikilvæg tengsl og þekkingu sem byggja á alþjóðlegri samvinnu og framtaki.

Áætlunin er samkeppnissjóður sem rekin er á svipuðum forsendum og rannsóknaráætlanir innan EES-samningsins, þar sem umsóknir keppa í gæðum um það fjármagn sem til ráðstöfunar er.  Með aukinni alþjóðavæðingu er sífellt mikilvægara að vinna að alþjóðlegum verkefnum til að auka samkeppnishæfni byggða og atvinnulífs. Framlag íslenskra stjórnvalda til áætlunarinnar verður samtals  1.200.000? árin 2007 til 2009. Heildarfjármagn áætlunarinnar að viðbættum mótframlögum eru um sjö milljarðar íslenskra króna fyrir árin 2007–2013.Umsóknir eru metnar af sérfræðingum frá öllum aðildarlöndunum og er stuðningur háður a.m.k. 50%  mótframlagi umsóknaraðila hvað íslenska þátttöku varðar.

Úthlutun NPP í desember 2007

Þann 19. desember2007 fjallaði verkefnisstjórn NPP um 19 nýjar umsóknir, 12 verkefni voru samþykkt með skilyrðum og eru íslenskir þátttakendur í fjórum  þeirra. Heildar-kostnaður  verkefna með íslenskum þátttakendum  eru 520 milljónir og er íslenski verkefnahlutinn 90 milljónir.   Alls bárust 15 forverkefnisumsóknir og þar af  voru níu samþykktar. Mikill fjöldi umsókna og breið þátttaka bendir til þess að vel hefur tekist með innleiðingu Norðurslóðaáætlunar 2007-2013.

Eftirfarandi aðalverkefni voru samþykkt með skilyrðum:

 

North Hunt, Sustainable Hunting Tourism - business opportunity.

Heildarkostnaður 101,4 milljónir

Hlutur Íslands 25,3 milljónir eða 24,9%

Samstarfsverkefni Íslands, Finnlands, Skotlands og Kanada (Labrador og Nýfundnaland).

Íslenskir þátttakendur: Rannsóknamiðstöð Háskólans Akureyri, Rannsóknarsetur ferðaþjónustunnar, Umhverfisstofnun og fleiri.

Markmið verkefnisins er að styðja við þróun sjálfbærra veiða til eflingar atvinnulífs og búsetu með áherslu á veiðimenningu. Áhersla er á miðlun reynslu og þekkingar á milli þátttakenda og kanna möguleika á sameiginlegri markaðssetningu vörumerkis ”Northern brand” fyrir sjálfbærar veiðar.

 

NEED, Northern Environment Education Development.

Heildarkostnaður 109,8 milljónir.

Hlutur Íslands 27 milljónir eða 24,6%

Samstarfsverkefni Íslands, Finnlands, Noregs og Írlands.

Íslenskir þátttakendur: Rannsóknasetur Háskóla Íslands, Höfn Hornafirði, Háskólasetrið Húsavík, Þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfrum, Þróunarstofa Austurlands, Kirkjubæjarstofa, Þjóðgarðurinn Skaftafelli og sveitarfélögin Hornafjörður, Skaftárhreppur, Fljótsdalshérað og Norðurþing.

Markmið verkefnisins er að bæta og auka umhverfiskennslu og nýsköpun á sviði fræðandi ferðaþjónustu í samstarfi við tengda aðila með áherslu á jarðfræðisögu, mótun lands og umhverfismál. Með slíkri miðlun er leytast við að hafa áhrif á viðhorf ferðamanna til umhverfis og sjálbærrar nýtingar.

 

PELLETime – Solutions for competitive pellet production in medium size enterprices.

Heildarverkefniskostnaður 159 milljónir.

Hlutur Íslands 14,5 milljónir eða 9,1%

Samstarfsverkefni Íslands, Finnlands, Skotlands og Svíþjóðar.

Íslenskir þátttakendur: Héraðs- og Austurlandsskógar og Skógrækt ríkisins

Markmið verkefnisins er að mynda grundvöll til aukinnar hagnýtingar á timbri og öðrum lífrænum efnum af litlum gæðum sem endurnýjanlegan orkugjafa gegnum rannsóknir og alþjóðlegt samstarf. Verkefnið getur nýst beint í skógræktarverkefnunum og gefið frumkvöðlum tækifæri til að hasla sér völl á  sviði timburnýtingar.

 

Economuseum Northern Europe.

Heildarverkefniskostnaður 149,8 milljónir.

Hlutur Íslands 23 milljónir eða 15,4%

Samstarfsverkefni Íslands, Noregs, Færeyja, Norður Írlands, Írlands og Kanada.

Íslenskir þátttakendur:  Fruman Nýheimum Höfn Hornafirði og Fræðslunet Austurlands.

Markmið verkefnisins er að hagnýta sér reynnslu og þekkingu sem skapast hefur í árangursríku sambærilegu verkefni frá Kanada. Economuseum verkefnið sameinar menningu, handverk og ferðamennsku til að mynda grundvöll fyrir handverksfólk sem nota að stærstum hluta aldagamlar aðferðir til að skapa ný störf. Verkefnið aðstoðar við þróun viðskiptahugmynda, sýningahald ásamt kennslu og þjálfun ungs fólks.

Norðurslóðaáætlunin heyrir undir iðnaðarráðuneyti og Byggðastofnun rekur landsskrifstofu Norðurslóðaáætlunarinnar á Íslandi. Nánari upplýsingar veitir Þórarinn Sólmundarson, thorarinn@byggdastofnun.is og á heimasíðu Byggðastofnunar er að finna nánari upplýsingar http://www.byggdastofnun.is