Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun vill minna fólk á að velja af kostgæfni andlitsliti á börn fyrir öskudag. Könnun á vegum danskra heilbrigðisyfirvalda hefur leitt í ljós að efni í andlitslitum sem ætluð eru fyrir börn geta innihaldið óæskileg efni sem ýmist er vitað að geti verið hættuleg eða vísbendingar gefa tilefni til að varlega skuli farið. Gera má ráð fyrir að flestar snyrtivörur, þar með taldir andlitslitir, megi nota á öruggan hátt en hafa verður í huga að börn eru viðkvæmari fyrir efnum en fullorðnir.

Nokkur atriði sem hafa má í huga við val á andlistlitum:

  • Ilmefni (parfume) geta mörg hver valdið ofnæmi.
  • Rotvarnarefni geta verið varasöm. Parabenar (isobutýlparaben, bútýlparaben, o.fl.) eru rotvarnarefni sem leyfilegt er að nota í litlu magni en hafa ekki verið rannsökuð að fullu og grunur leikur á að efnin geti truflað hormónastarfsemi líkamans. Rannsóknir benda til truflandi áhrifa á hormónastarfsemi en ekki hefur verið skorið úr um það hve sú hætta er mikil.
  • CE-merking er ákveðin trygging
  • Innihaldsefni þ.m.t. litarefni skulu talin upp á umbúðum.