Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Ráðstefna um skyldur fyrirtækja samkvæmt REACH

REACH, ný reglugerð Evrópusambandsins um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (Registration, Evaluation, Authorisation and Restriction of CHemicals), hefur í för með sér nýjar skyldur fyrir iðnaðinn. Ein sú mikilvægasta er sú að efni sem framleitt er á Evrópska efnahagssvæðinu eða flutt inn á það, í meira magni en sem nemur 1 tonni á ári, á hvern framleiðanda/innflytjanda, skal skrá það hjá Efnastofnun Evrópu í Helsinki (ECHA). Bráðbirgðafrestir vegna skráningar eru gefnir fyrir efni sem hafa verið á markaði fyrir gildistöku (allt að 10 ár), en til að nýta sér þessa fresti verða fyrirtæki að forskrá efni sín á tímabilinu 1. júní 2008 – 1. desember 2008. Forskráningin gefur fyrirtækjum einnig kost á að komast í samband við skráningaraðila sama efnis og deila með þeim gögnum til að koma í veg fyrir óþarfar frekari rannsóknir. Þannig getur kostnaður fyrirtækja við skráningu efna minnkað. Ef fyrirtæki forskráir ekki efni sitt getur það ekki haldið framleiðslu þess eða innflutningi áfram fyrr en hann hefur skráð það að fullu skv. ákvæðum REACH. Einungis er hægt að forskrá á áðurnefndu tímabili.

Til að vekja athygli fyrirtækja á forskráningu og skráningu efna skv. REACH stendur Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í samvinnu við Efnastofnun Evrópu fyrir ráðstefnu þann 14. apríl næstkomandi í Brussel. Markmiðið er að vekja fyrirtæki til umhugsunar um skyldur sínar, einkum mikilvægi þess að forskrá efni. Ráðstefnan nýtist vel þeim fyrirtækjum hér á landi sem hugsanlega hafa skyldum að gegna skv. REACH.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á eftirfarandi hlekk: http://ec.europa.eu/enterprise/reach/events_en.htm og rafrænt skráningarform á hlekknum: http://ec.europa.eu/enterprise/reach/reach_workshop_reg/formreg.htm

Nánari upplýsingar um REACH má finna á Upplýsingasíðu UST um REACH; og á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu: http://www.echa.europa.eu/