Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisviðurkenningar Hornafjarðar fyrir árið 2007 voru afhentar í Freysnesi á degi umhverfisins 25.apríl sl. og hlaut Charles J. Goemans viðurkenningu fyrir að skipuleggja og halda utan um starf sjálfboðaliða á vegum Umhverfisstofnunar og vinnu í nánu samstarfi við bresku sjálfboðaliðasamtakanna BTVC.

Meginstarfsstöð sjálfboðaliðanna er í Skaftafelli þar sem meiri hluti starfs þeirra fer fram en auk þess vinna þeir við stígagerð á friðuðum svæðum víða um land.

Við afhendinguna sagði Sigurlaug Gissurardóttir m.a.:
Umhverfismál eru afar víðtækt hugtak fjallar í raun um allt í umhverfi okkar ekki aðeins um náttúruvernd, velhirtar lóðir og hús, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Umhverfismál snúast í raun um velferð okkar og lífsgæði og möguleika okkar til að lifa af, sem einstaklingar, sem samfélag og sem hagkerfi. Það hvernig við umgöngumst umhverfi okkar kemur ekki aðeins okkur við, það hefur í flestum tilfellum áhrif á marga aðra þætti og einstaklinga og oft til langs tíma. Og hefur þannig áhrif á komandi kynslóðir.

Við getum haft jákvæð áhrif á umhverfi okkar með ýmsu móti. Með beinum hætti s.s. með því að vinna að því að sleppa ekki út í umhverfið mengandi efnum. Með því að minnka notkun einnota umbúða og auka endurnýtingu hvers konar, bæði í þeim tilgangi að auka verðmæti og þess að minnka það sorpmagn sem kemur til endanlegrar förgunar. Einnig með því að skýla og rækta upp nánasta umhverfi og skapa þannig sjálfum okkur og okkar nánustu notalegra umhverfi og skilyrði til ræktunar nytjajurta hvers konar.

Einn mikilvægasti er þáttur þeirra sem með einum eða öðrum hætti fræða og styðja börn og unglinga vekja þau til vitundar um þá auðlind sem þeirra nánasta umhverfi er og hve mikilvægt er að sýna því tilhlýðilega virðingu.

Undanfarið ár hefur verið unnið markvisst að því af hálfu sveitarfélagsins að skapa skilyrði til aukinnar sorpflokkunar og endurvinnslu. Við sem að þeim málum vinnum erum afar þakklát fyrir hve íbúar og fyrirtæki hafa komið með jákvæðum hætti að framgangi þess og umtalsverður árangur náðst.

Fylgir hér nánari greinargerð til kynningar á starfi Charles J. Goemans.

Sjálfboðaliðastarf á vegum BTCV, British Trust for Conservation Volunteers, sem eru bresk sjálfboðaliðasamtök, hefur verið í gangi á Íslandi í 30 ár. Þessum tímamótum verður fagnað í sumar m.a. með heimsókn aðila frá BTCV. Sett verður upp myndasýningu um starfið í gegnum tíðina. Sýningin er farandsýning sem sett verður upp í þjóðgörðunum. Síðan er meiningin að þær myndir sem teknar hafa verið í Skaftafelli verði eftir í Skaftafelli til varðveislu og norðan myndirnar verði í Jökulsárgljúfrum.
Charles eða Chas sem flestum er tamara að nefna hann, hefur starfað á þessum vettvangi síðan 1996 og er frá árinu 2003 starfsmaður Umhverfisstofnunar í heilsársstarfi. Vinna hans felst í að skipuleggja móttöku, þjálfun og vinnu sjálfboðaliðanna, sem er ungt fólk víðs vegar að úr heiminum. Segja má að vinna hans gangi út á að greiða götu ferðamannsins í bókstaflegum skilningi, en hún felst einkum í stígagerð, nýlögnum sem lagfæringum og er leitast við að nota grjót og möl úr umhverfinu auk þess sem timbur er notað í æ ríkari mæli, í brýr og palla.
Sjálfboðaliðarnir búa saman á starfstímanum og skipta með sér verkum við heimilishald. Einnig þar eru umhverfismál í heiðri höfð og lögð áhersla á að tileinka sér flokkun alls úrgangs og að koma honum til endurvinnslu. Eins og gefur að skila þegar fólk býr og vinnur svo náið saman myndast mjög góð kynni og sambönd milli landa og skilningur eykst.