Stök frétt

Efnastofnun Evrópu (European Chemicals Agency, ECHA) var opnuð formlega 3. júní síðastliðinn af Jose Manuel Baroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Efnstofnunin sem staðsett er í Helsinki, hefur yfirumsjón með innleiðingu reglugerð Evrópusambandsins um skráningu, mat, leyfisveitingar og takmarkanir að því er varðar efni (REACH). Efnastofnunin tók til starfa á síðasta ári og hefur fyrsta starfsár hennar verið helgað uppbyggingu stofnunarinnar, undirbúningi að innleiðingu REACH og þjálfun starfsfólks.

Þann 1. júní 2008 fóru í gang tveir lykilferlar REACH reglugerðarinnar: Skráning nýrra efna annars vegar, og forskráning á flestum þeirra 30.000 efna sem fyrir eru á markaði (t.d. sýrur, málmar, leysar, yfirborðsefni) hins vegar. Framleiðendur eða innflytjendur efna þurfa að forskrá fyrir 1. desember 2008 ef þeir vilja halda framleiðslu eða innflutningi efnanna áfram. Áætlað er að um 180.000 forskráningar muni berast efnastofnuninni á þessu tímabili.

Nánari upplýsingar um REACH og forskráningu má finna á heimasíðu Efnastofnunarinnar: www.echa.europa.eu og á heimasíðu Umhverfisstofnunar.