Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Mynd: Guðrún Lára Pálmadóttir

Mikið af fræðslu- og skemmtiferðum eru í boði í þjóðgarðinum Snæfellsjökli í sumar. Síðastliðinn laugardag var genginn 4. áfangi göngu meðfram allri strönd þjóðgarðsins og var að þessu sinni gengið frá Þórðarkletti að Skálasnagavita á Öndverðarnesi. Sæmundur Kristjánsson og Tómas Gunnarsson fræddu gesti um sögu og fuglalíf á göngunni. Á sunnudag var farið í refaskoðunarferð í sólskini og blíðu undir leiðsögn Sæmundar Kristjánssonar. Farið var að refagreni nálægt Malarrifi og sáust þar ummerki eftir ref en ekkert sást til lágfótu fyrr en nokkru síðar þegar Mikki refur birtist óvænt í hrauninu og sagðist vera að leita að Lilla klifurmús. Mikki spjallaði dágóða stund við gestina og voru krakkarnir í ferðinni ekkert hræddir við hann og gáfu honum fuglabein að naga enda kvartaði Mikki yfir hungri. Aðspurður sagðist Mikki halda til í þjóðgarðinum þegar hann væri ekki á sviðinu því þar eru refir friðaðir og öll skotveiði bönnuð. Mikki söng fyrir gestina en kvaddi svo og hélt áfram leit sinni að Lilla. Þá var gengið að Sauðahelli sem var eins og nafnið bendir til notaður sem sauðageymsla í fyrri tíð. Á leiðnni sáu gestir m.a. mjög heillega gamla hlaðna refagildru en þær er víða að finna í þjógðarðinum.

Næsta laugardag,14. júní kl. 14 verður önnur refaskoðunarferð á vegum þjóðgarðsins en á Öndverðarnesi í þetta sinn. Mæting er við afleggjarann út á Öndverðarnes 13:45. Sæmundur leiðsegir sem fyrr og spennandi verður að sjá hvaða refir láta sjá sig í þeirri ferð. Á sunnudaginn er Norrænn dagur villtra blóma og verður af því tilefni fræðslu- og skemmtiferð um veröld flórunnar við Rauðhól kl. 14. Nánari upplýsingar má fá hjá þjóðarðinum í símum 436 6860 og 436 6888 og sumardagskrána í heild sinni má finna hér.

Litið inn í refagreni eftir ummerkjum um refi

Mynd: Guðrún Lára Pálmadóttir