Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Snævarr Guðmundsson

Helgigöngur undir Jökli á Jónsmessu
- næring fyrir líkama og sál -

Um Jónsmessu verða gengnar tvær skemmtilegar helgigöngur í þjóðgarðinum Snæfellsjökli og eru þær samstarfsverkefni þjóðgarðsins og Ingjaldshólskirkju. Gengið verður á tveimur dögum eftir gömlum þjóðleiðum frá fornum aflögðum kirkjustöðum að gömlum kirkjustöðum þar sem standa kirkjur. Göngustjóri verðir Sæmundur Kristjánsson sagnamaður í Rifi, leiðsögumaður og landvörður ásamt fleirum. Margt fróðlegt og skemmtilegt ber á góma s.s. sögur af merkum atburðum, minnisstæðu fólki, helgisagnir og þjóðlegur fróðleikur sem tengist leiðinni og lífi fólks að fornu og nýju. Gengið verður í áföngum, ýmist í þögn eða samræðum.

Mánudaginn 23. júní verður gengið frá rústum bæjarins Saxhóls og að Ingjaldshóli. Rúta fer frá Ingjaldshóli kl. 19:00 að Saxhóli. Þar hefst gangan kl. 19:30 eftir helgistund og fararblessun og verður gengið fram á Jónsmessunótt. Göngunni lýkur um kl. 2:30 með klukknahringingu og stuttri helgistund við sólarupprás við Ingjaldshólskirkju.

Þriðjudaginn 24. júní, á Jónsmessu, hefst seinni áfanginn. Rúta fer kl. 15:30 frá Hellnakirkju og að Djúpalónssandi. Þaðan er stuttur gangur að Einarslóni en þar verður lagt af stað í gönguna um kl. 16:00 eftir helgistund og fararblessun. Gengin verður gamla þjóðleiðin upp til Purkhóla, með Háahrauni að forna kirkjustaðnum á Laugarbrekku og að Hellnakirkju. Þar lýkur göngunni með næturmessu um kl. 22:30. Hægt er að ganga hluta leiðanna eftir því sem orka leyfir. Nauðsynlegt er að hafa drykkjarvatn með sér sem og annað nesti. Ekkert þátttökugjald.