Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Frá því um hádegisbili í gær hefur lögreglan á Blönduósi verið að leita að meintum ísbjarnarsporum í Þjófadölum við Hveravelli. Grunur barst lögreglunni um slík spor frá pólskum ferðamönnum sem áttu leið um svæðið. Leitin hófst skömmu eftir að tilkynning barst lögreglunni og stóð til um 10:00 að kvöldi 19. Júní og hófst að nýju kl. 13:00 þann 20. júní en þá fannst sá staður sem ferðamenn höfðu komið að og talið sig sjá ísbjarnarspor. Þegar að var gáð reyndust sporin að öllum líkindum vera eftir hesta. Í kjölfarið var leit hætt og menn kallaðir af heiði.

Fljótlega eftir að Umhverfisstofnun fékk tilkynningu frá Lögreglunni á Blönduósi um þennan meinta fund ísbjarnarspora hóf stofnunin undirbúningsvinnu við að fanga björninn og vann að henni þangað til að ljóst var að ekki væri um ísbjarnarspor að ræða.

Sunnudaginn 22. júní mun Landhelgisgæslan fara í könnunarferð og leita eftir ísbjörnum á Hornströndum og á Skaga. Þessi aðgerð er í samstarfi Landhelgisgæslunnar, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Leitarsvæðið er stórt og verður stýrt af sérfræðingum ofangreindra stofnanna.