Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Sandfok við Sandkluftavatn á Uxahryggjarleið 1. júlí 2008 (Mynd: Þorsteinn Jóhannsson)

Höfundur myndar:

Í gær 1. júlí var víða mikið sandrok á suðurhluta landsins. Greinilegt mistur var á höfuðborgarsvæðinu og af vindátt af dæma var þetta sandfok að koma af svæðinu sunnan og suðvestan við Langjökul. Meðfylgjandi mynd er tekin um kl 18 í gær við Sandkluftavatn á Uxahryggjarleið en þarna var mikið sandfok. Um tíma mátti sjá nokkuð skörp skil sem lágu í línu NA-SV um höfuðborgarsvæðið. Mikið mistur var sunnan línunnar en mun minna norðan hennar. Úr Ártúnsbrekku sást t.d. greinilega til Snæfellsjökuls en blokkirnar í Engihjalla í Kópavogi sáust varla. Þetta mátti greinilega sjá á svifryksmælum á höfuðborgarsvæðinu. Í mælistöð Heilbrigðiseftirlits Hafnarjarðar og Kópavogssvæðis sem staðsett er við Marbakkabraut í Kópavogi var klukkutímameðaltalið 36 µg/m3 kl 17 en á sama tíma var að mælast á mælistöð Umhverfisstofnunar og Alcans við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði 142 µg/m3.

Af myndum af dæma frá Landsmóti Hestamanna á Gaddastaðaflötum við Hellu má áætla að svifryksstyrkurinn þar hafi mælst í hundruðum míkrógramma í rúmmetra. Því miður eru ekki neinir svifryksmælar á Suðurlandi en ástæða væri til að vakta enn frekar svifryksmengun vegna sandfoks á því svæði því þótt þetta sé „náttúrulegt“ svifryk er það engu að síður óæskilegt til innöndunar.