Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Síðasta sumar hófst ganga eftir endilangri strönd Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls með fróðu leiðsögufólki. Þrír áfangar voru gengnir þá og þrír í sumar og er þetta lokaáfangi göngunnar. Ætlunin er síðan að endurtaka leikinn og ganga hluta úr ströndinni á hverju ári.

6. áfangi, Djúpalónssandur-Sunneva. Laugardaginn 16. ágúst kl. 11

Ströndin er mjög fjölbreytt og skemmtileg á þessari leið og margt að skoða. Gengið verður um Einarslón, Malarrif, Lóndranga og Þúfubjarg þar sem Kolbeinn og kölski kváðust á forðum. Fjölskrúðug náttúra og dýralíf er á þessum slóðum auk fjölda menningarminja og því margar sögur sem tengjast þessu svæði. Leiðsögumenn um fjörulíf, sögu og náttúru svæðisins verða þau Sæmundur Kristjánsson og Erla Björk Örnólfsdóttir sjávarlíffræðingur. Ferðin tekur um 5-6 klst. Mikilvægt er að vera í góðum skóm og með vatn og nesti. Hist verður við bílastæðið á Djúpalónssandi klukkan 10:45. Fólk verður ferjað til baka frá Sunnevu.

Allir velkomnir.