Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Starfsmenn Umhverfisstofnunar gengu fram á hjólför utan vega í Friðlandi að Fjallabaki í gær. Líklegt er að aksturinn hafi átt sér stað fyrr um daginn. Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd liggur hjólfarið yfir sandsléttu hvar gróður á erfitt uppdráttar. Ökumanninum tókst þrátt fyrir það að aka yfir eina af þeim fáu plöntum sem þar vaxa. Einnig tóku starfsmenn Umhverfisstofnunar myndir af um 25 ára gömlum sárum eftir utanvegaakstur sem enn er langt í að grói.

Eins og glögglega má sjá af eldri myndinni tekur það langan tíma fyrir þau sár, sem myndast við utanvegaakstur, að gróa. Íslenskur jarðvegur er oft mjög viðkvæmur og því geta liðið ár og jafnvel áratugir þar til ummerkin afmást. Þar skiptir einnig máli hversu stuttur vaxtartími gróðurs er á hverju ári hérlendis.

Umhverfisstofnun berast því miður alltof margar tilkynningar um utanvegaakstur hvar skemmdir hafa verið unnar á náttúru Íslands. Nýlega var fjallað um slíkan akstur í fjölmiðlum. Umhverfisstofnun hefur undanfarin ár dreift bæklingi með upplýsingum um utanvegaakstur og er nýrri útgáfu að vænta á næstunni.

Að neðan gefur að líta myndir frá Friðlandinu að Fjallabaki. Sú fyrri er af nýlegum ummerkjum en sú seinni af akstri utan vega sem líklega er um 25 ára gamall.