Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt opinn kynningarfund á Akranesi þann 8. september sl. þar sem kynnt voru drög að starfsleyfi fyrir sementsverksmiðjuna á Akranesi. Kristján Geirsson lýsti í upphafi tilgangi og eðli starfsleyfa en síðan fór Sigurður Ingason yfir drögin og helstu breytingar sem eru kynntar frá eldra starfsleyfi verksmiðjunnar. Einnig fór Gunnar H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar, yfir aðferðir verksmiðjunnar við að uppfylla kröfur starfsleyfisins og hvernig það hyggst haga málum varðandi notkun eldsneytis sem er unnið úr úrgangi.

Að lokinni kynningu var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir úr sal. Bæjarbúar fylltu bæjarþingsalinn og spunnust líflegar umræður um fjölmörg atriði starfsleyfisins og um reynsluna af sambýli nágranna og verksmiðjunnar.

Helstu atriði sem spurt var um tengdust fyrirhuguðum gildistíma starfsleyfisins, notkun eldsneytis sem unnið er úr úrgangi, geymslu úrgangs á verksmiðjusvæðinu, lyktarmengun frá verksmiðjunni, mengunarmælingar, tengsl við skipulag og framtíðaráætlanir sveitarfélagsins, flutninga til og frá svæðinu og, síðast en alls ekki síst, um rykmengun frá verksmiðjusvæðinu.

Auk framangreindra sóttu fundinn fyrir hönd Umhverfisstofnunar, Gunnlaug Einarsdóttir sem stýrði fundinum og Sigrún Ágústsdóttir sem veitti svör við lögfræðilegum málum.

Frestur til að gera athugasemdir við starfsleyfistillöguna er til 19. september.