Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir álver Norðuráls Helguvík sf. á iðnaðarsvæðinu við Helguvík. Starfsleyfið veitir heimild til framleiðslu allt að 250.000 tonna af áli á ári á iðnaðarsvæðinu við Helguvík, auk reksturs tilheyrandi málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir eigin framleiðsluúrgang, verkstæða og annarrar þjónustu fyrir eigin starfsemi.

Eitt er það nýmæli í þessu starfsleyfi að sett eru ákvæði um losun flúorkolefna (gróðurhúsalofttegundir) sem gilda á fyrstu árum rekstrar álversins. Í eldri leyfum voru aðeins í gildi ákvæði þess efnis frá fjórða starfsári og litið svo á að rekstraraðili þyrfti að hafa rými til aðlögunar. Losun flúorkolefna skal vera innan við 0,14 tonn af koldíoxíðígildum á framleitt tonn af áli mælt sem ársmeðaltal frá og með fjórða framleiðsluári hvers áfanga. Fyrstu þrjú framleiðsluár hvers áfanga skal losunin vera innan við 0,20 tonn af koldíoxíðígildum á framleitt tonn af áli mælt sem meðaltal þeirra þriggja ára. Hámarkslosun fyrstu þriggja ára fyrsta áfanga skal þó vera 0,28 tonn af koldíoxíðígildum á framleitt tonn á ári að meðaltali.

Meðal helstu atriða í starfsleyfinu má nefna að í vöktunaráætlun skal kveðið á um eftirlit með heilsufari grasbíta sem dveljast innan þynningarsvæðisins. Umhverfisstofnun minnkaði umrætt þynningarsvæði miðað við þá tillögu sem lá fyrir í matsferlinu. Sett hefur verið lágmarksákvæði fyrir vöktunaráætlun: Þá skal fylgjast með loftgæðum, úrkomu, veðurfari, mengun í tjörnum, gróðri, beitargróðri og heyi, jarðvegi og jarðvatni, sjávarseti og sjávarlífverum.

Árlega skal funda með Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og ræða um rekstur mengunarvarna, niðurstöður mengunarmælinga, hugsanlega endurskoðun á starfsleyfi þessu svo og önnur atriði er kynnu að hafa komið upp og fulltrúar áðurnefndra aðila telja ástæðu til þess að ræða.

Tillaga að starfsleyfi fyrir starfsemina var auglýst á tímabilinu 18. júní til 13. ágúst 2008. Sjö athugasemdir bárust við tillöguna.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til fullnaðarúrskurðar umhverfisráðherra innan tveggja vikna frá ákvörðun Umhverfisstofnunar skv. 1. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 785/1998, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. 2. mgr. 32. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.